Íslandsdeild Amnesty International sendi frá sér tilkynningu í dag sem stíluð var sérstaklega á Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra þar sem hún fordæmir brottvísanir íslenskra stjórnvalda á umsækjendum um alþjóðlega vernd. Þá tekur yfirlýsingin einnig fram að aðstæður fólks sem sent er til Grikklands séu oft á tíðum mjög slæmar og

Í yfirlýsingu sinni harmar Amnesty hina ómannúðlegu og vanvirðandi meðferð stjórnvalda á þessum viðkvæma hópi samfélagsins sem sviptur var frelsi sínu aðfaranótt 3. nóvember síðastliðinn.

Þá er einnig tekið fram að deildin hafi ítrekað gagnrýnt brottvísanir til Grikklands og þá stefnu stjórnvalda að taka ekki til efnislegrar meðferðar mál einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem sótt hafa um vernd á Íslandi.

Alþjóðleg viðmið hundsuð

Íslandsdeild Amnesty International segir það ganga í berhögg við alþjóðleg viðmið að fólk sem sækir um vernd á Íslandi sé ekki veitt hæli á Íslandi og að málsmeðferð þeirra snúist að miklu leyti um takmörkun á frelsi þeirra og réttinda. Þá er einnig tekið fram að:

„Fjölmargar heimildir, svo sem skýrslur Evrópuráðsins og mannréttinda- og frjálsra félagasamtaka gefa til kynna að raunverulegar aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu óviðunandi.“

Fólk sem þangað er sent lendi oft á götunni og geti ekki unnið eða samið um leiguhúsnæði og verði þannig fyrir mikilli félagslegri einangrun.

Fá ekki félagslega aðstoð

Íslandsdeildin bendir á það að í nýlegum úrskurði kærunefndar útlendingamála komi það beinlínis fram að það sé ljóst af fyrirliggjandi gögnum að þeir einstaklingar sem hlotið hafi alþjóðlega vernd í Grikklandi lifi oft á jaðri samfélagsins.

Þá eigi margir einstaklingar mjög erfitt með að verða sér út um skattnúmer hjá grískum stjórnvöldum sem sé grundvöllur fyrir því að sækja sér félagslega aðstoð, fá vinnu og til þess að gera samning um leiguhúsnæði.

Hvetja stjórnvöld til endurskoðunar

Að lokum kemur fram að Íslandsdeild Amnesty hvetur stjórnvöld til þess að endurskoða stefnu sína:

„Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar í Grikklandi og einstaklingsbundinna aðstæðna hvetur Íslandsdeild Amnesty International íslensk stjórnvöld til að endurskoða stefnu sína um að taka ekki til efnislegrar meðferðar mál einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi.“

Hægt er að lesa yfirlýsinguna í heild sinni hér.