Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, er sammála Katrínu Jakobsdóttur um að skynsamlegt sé að setja Íslandsbanka í söluferli. Bæði vegna þarfar á innspýtingu og vöntunar á innviðauppbyggingu, sérstaklega í samgöngumálum. Fjórðungshlutur bankans hefur verið nefndur í þessu samhengi.

Sigurður hefur ekki áhyggjur af því að tímasetningin sé slæm. „Allt bendir til þess að verðmæti hefðbundinna banka muni ekki aukast á næstu árum, meðal annars vegna nýrrar fjártækni.“ Hann segir þó að sala banka sé ekki eina leiðin sem fær sé til að bæta innviði, lántaka komi til greina, góðar aðstæður séu til þess vegna stöðu ríkissjóðs.

Hvað mögulega kaupendur varðar segir Sigurður mikilvægast að jafnræði gildi í ferlinu og góð dreifing. „Við getum haft óskhyggju uppi um að hingað kæmi öflugur skandinavískur banki en við munum ekki ráða því.“ Á Sigurður fastlega von á því að ferlið hefjist á kjörtímabilinu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segist fagna hugmyndum um sölu Íslandsbanka og sérstaklega stefnubreytingu Vinstri grænna hvað það varðar. „Við í Viðreisn höfum talað um að það þurfi að selja hluta af bönkunum, meðal annars Íslandsbanka, til að byggja upp innviði,“ segir Þorgerður. „Við verðum samt að horfast í augu við að gjaldmiðillinn sjálfur og bankaskatturinn er ekki að hjálpa til við að laða kaupendur að. En það er nauðsynlegt að fara í innviðafjárfestingar núna á meðan samdráttur er.“

Þá veltir Þorgerður því einnig fyrir sér, ef lífeyrissjóðirnir kæmu að kaupum, hvort rétt sé að þeir eigi bæði stóran hluta af fyrirtækjum landsins og banka. „Við vonumst eftir því að kaupendahópurinn verði fjölbreyttari,“ segir hún.

Samkvæmt Smára McCarthy, formanni Pírata, hefur málið ekki verið rætt innan þingflokks en hans eigin afstaða er að það sé ekki kappsmál að ríkið eigi bankana. „Ég tel samt ekki sniðugt að selja í einhverju óðagoti. Það virðist tilhneiging hjá Sjálfstæðisflokknum að selja og selja og selja og helst á sem lægsta verði og hæpnum forsendum,“ segir hann.

Telur hann betra að selja yfir heilan áratug eða meira, eins og fordæmi séu frá Norðurlöndunum. Bæði til að passa upp á að ekkert fari úrskeiðis og til að fá sem best verð, þegar séu Íslendingar brenndir af misheppnuðum einkavæðingum. Hann segir að í ljósi lágs skuldahlutfalls sé betra að fjármagna innviðauppbyggingu með lánum.

Áður en Íslandsbanki sé seldur segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, að Íslendingar verði að koma sér saman um hvernig bankaþjónusta eigi að vera í breiðri sátt. Samfylkingin hafi talað fyrir aðskilnaði viðskipta og fjárfestingabankastarfsemi. Þegar stefnan liggi fyrir sé hægt að ákveða hvort selja eigi, hvaða banka og hversu stóran hlut. „Búið er að vara við því í mörg ár að tekna hafi ekki verið aflað og tekjustofnar gefnir eftir. Því finnst mér dapurt að nú, þegar slaki er í hagkerfinu, að farið sé í stofuskápinn og silfrið selt á tíma sem við fáum undirverð fyrir það,“ segir hann.

„Okkur líst ekki illa á það, það er hins vegar hvort rétti tíminn sé núna. Persónulega myndi ég bíða aðeins lengur,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, um sölu. Enn þá sé hagnaður af bönkunum sem skili sér í þjóðarbúið. „Miðað við þær álögur sem settar eru, ítrekað og endalaust, á landsmenn, ætti með réttri forgangsröðun að vera hægt að fjárfesta í innviðum.“

Nefnir hún einnig að í stað þess að setja arð orkufyrirtækja í Þjóðarsjóð skuli hann nýttur í innviði. Einnig nefnir hún að bankaskattur og veiðigjöld hafi verið að lækka og þjóðarbúið verði af milljarðatugum vegna skattaundanskota.