„Ég held að það muni alveg halda að skýrslan komi í ágúst. Það er tvennt sem þarf að horfa til hvenær sem við klárum skýrsluna, lokafasinn í því er umsagnarferli með þeim sem hlut eiga að máli,“ segir Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi um skýrslu um söluna á Íslandsbanka.

„Svo er spurning með hvaða hætti þingið tekur þetta fyrir og hvenær, af því að þetta fer væntanlega bara sína venjulegu leið,“ segir Guðmundur. Skýrslan verði ekki birt almenningi fyrr en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur tekið hana til meðferðar.

„Það eru hlutir í þessu sem eru ekki á okkar valdi varðandi hvenær skýrslan kemur almenningi fyrir sjónir,“ segir Guðmundur og bætir við að gagnaöflun hafi gengið vel þrátt fyrir sumarfrí. „Við kvörtum samt ekki yfir því. Þetta er náttúrlega umfangsmikið og flókið viðfangsefni, en það er úrvinnslan sem skiptir máli,“ segir Guðmundur.

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir að ferill málsins í þinginu skýrist þegar betur er vitað hvenær von sé á skýrslunni. „Við bíðum bara nánari upplýsinga um tímasetningu og tökum stöðuna þegar það liggur fyrir,“ segir Birgir.