Skýrsla ríkis­endur­skoðanda um söluna á hlut ríkisins í Ís­lands­banka verður ekki skilað til Al­þingis fyrir lok þessa mánaðar, eins og til stóð að gera. Þetta stað­festir Guð­mundur Björg­vin Helga­son, ríkis­endur­skoðandi, í sam­tali við RÚV.

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, fól ríkis­endur­skoðanda í apríl að kanna og leggja mat á hvernig tókst við sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Ís­lands­banka.

Í sam­tali við RÚV segir Guð­mundur að skýrslan veðri send í um­sagnar­ferli í næstu viku, en það ferli getur tekið ein­hverja daga. Að því loknu verður skýrslan send til for­seta Al­þingis og þaðan til stjórn­skipunar- og eftir­lits­nefndar sem fjallar um skýrsluna.

Skýrslan átti fyrst um sinn að vera til­búin í júní, henni var síðan frestað til júlí, síðan ágúst og fyrr í septem­ber sagði ríkis­endur­skoðandi að búast mætti við að skýrslunni yrði skilað fyrir lok septem­ber, enda væri skýrslan á loka­metrum.

Tals­vert hefur verið deilt um fram­kvæmd sölunnar á hlut ríkisins í Ís­lands­banka. Þá hefur sætt gagn­rýni að starfs­fólk og hlut­hafar hjá fjár­mála­stofnunum sem sáu um sölu bankans hafi sjálft fengið að kaupa hlut í bankanum.

Með­limir stjórnar­and­stöðunnar vildu fá sér­­s­taka rann­sóknar­nefnd á vegum Al­þingis til að leggja mat á söluna en við því var ekki orðið.