Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi segir að skýrslan um söluna á bréfum Íslandsbanka sé á lokametrunum.

„Við vonumst til að geta sett skýrsluna í umsagnarferli á næstu dögum,“ segir Guðmundur.

Einhvern tíma mun taka að vinna úr viðbúnum athugasemdum og ábendingum. „En ég ætla að halda mig við að við náum að klára þessa vinnu í september,“ segir Guðmundur.

Um fimm manns hafa komið að skýrslugerðinni hjá embættinu að sögn Guðmundar. Einnig hafa verið kallaðir til sérfróðir utanaðkomandi fjármálaráðgjafar. Vinnan við skýrslugerðina varð umfangsmeiri en embættið sá fyrir í upphafi, að hans sögn.

„Verkið er vandasamt og við þurfum að vinna það vel.“

Þegar skýrslan verður tilbúin fer hún til forseta Alþingis og þaðan væntanlega til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Vænta má þess að sama dag og skýrslan fær kynningu í þingnefndinni verði hún sett á netið.