Hópur Íslendinga sem hafa starfað með NATO og öðrum alþjóðlegum stofnunum í Afganistan hefur nú sent ákall til íslenskra stjórnvalda um að bregðast tafarlaust við ástandinu í Afganistan þar sem ljóst er að staðan er grafalvarleg. Talíbanar náðu á sunnudag höfuðborginni Kabúl á sitt vald og blasir nýr veruleiki við almennum borgurum í landinu, ekki síst konum og börnum.

Brynja Huld Óskarsdóttir, sem starfaði á vegum NATO í Afganistan frá 2018 til 2019, greinir frá ákallinu á Facebook síðu sinni hvar vísað er til þess að Afganistan hafi verið eitt helsta áhersluland íslenska ríkisins í öryggis- og þróunarmálum í nærri tvo áratugi og að frá árinu 2010 hafi höfuðáhersla verið lögð á ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1325, um konur frið og öryggi.

Þá sé skýrt kveðið á um það í íslenskri utanríkisstefnu að jafnréttissjónarmið séu samþætt utanríkisstefnu.

„Nú er komið að þeim átakanlegu tímamótum að við þurfum að axla ábyrgð á þátttöku okkar í þeim  aðstæðum sem nú hafa skapast í Afganistan og beita okkur fyrir verndun kvenna og stúlkna á  átakasvæðum,“ segir í ákallinu. „Grípa það hugrakka fólk, og sér í lagi konur, sem við studdum og gerðu okkur kleift að koma okkar  sjónarmiðum um jafnrétti, menntun og lýðræði á framfæri.“

Mikilvægt að standa vörð um réttindi kvenna og stúlkna

Í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi í Afganistan er farið fram á að íslensk stjórnvöld bjóði einstaklingum, og þá sérstaklega konum og börnum, alþjóðlega vernd hér á landi og að sjónum verði beint að konum sem stafar bein ógn af valdatöku Talíbana. Þá þurfi stjórnvöld að leita samstarfs við önnur Norðurlönd eða NATO ríki um flutning fólks sem er í mikilli hættu vegna starfa sinna.

Á alþjóðavettvangi er farið fram á að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að Sameinuðu þjóðirnar standi vörð um réttindi og vernd kvenna og stúlkna og að stjórnvöld beiti sér fyrir áframhaldandi uppbyggingar- og þróunarstarfi í Afganistan.

„Ísland sem herlaust og friðsælt land, og eitt öruggasta lands heims, auk þess að vera í efstu sætum á lista yfir ríki þar sem hvað mest kynjajafnrétti ríkir, ber siðferðileg og lagaleg skylda til þess að sýna í verki að ályktun 1325 um konur, frið og öryggi sé raunverulega hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu,“ segir í ákallinu.

Konurnar berskjaldaðar vegna starfa NATO

Að sögn Brynju Huldar hafa mörg þeirra sem starfað hafa í Afganistan undanfarin tíu ár unnið að því að valdefla Afganskar konur, íslenskur þróunarfulltrúi var meðal annars um tíma tengiliður milli kvennasamtaka og uppbyggingateymisins auk þess sem íslenskir friðgæsluliðar hafa verið tengiliðir fyrir afganskar blaðakonur og aðgerðarsinna, allt í takt við jafnréttisáherslur íslenskrar utanríkisstefnu.

„Núna eru þessar konur gríðarlega berskjaldaðar, vegna okkar starfa og því hvernig við beittum okkur fyrir sjónarmiðum og réttindum kvenna,“ segir Brynja Huld í samtali við Fréttablaðið en fjöldi kvenna í Afganistan starfa nú hjá hinu opinbera, í fjölmiðlum eða hjá öðrum stofnunum, og hafa starfað náið með bandalagsþjóðum.

Þar sem fæstar í þeim hópi hafa þó verið á launaskrá hjá vestrænum þjóðum eða sendiráðum uppfylla þær ekki skilyrði um sérstök landvistarleyfi, líkt og Bandaríkin og Bretland hafa tilkynnt að þeir muni veita þeim sem unnu fyrir alþjóðlega varnarliðið eða sendiráð meðlimaríkja NATO í Kabúl, þrátt fyrir að þær eigi mögulega hættu á dauðarefsingu, pyntingum eða vanvirðandi meðferð.

„Auðvitað skiljum við sem erum að senda þetta ákall til stjórnvalda að Ísland hafi ekki burði til að senda flugvélar til Afganistan til að sækja fólk, en það sem íslensk yfirvöld gætu gert væri til að mynda leitað samstarfs við hin Norðurlöndin sem vinna að því að koma fólki frá Kabúl,“ segir Brynja Huld og vísar til þess að Íslendingar á vegum Íslands í Afganistan hafi um árabil getað leitað til danska hersins og annarra Norðurlanda eftir stuðningi og aðstoð.

Þurfa að sýna samstöðu í verki

Brynja segir mikilvægt að íslensk stjórnvöld beiti sér af alvöru í málinu en Þórunn Ólafsdóttir, sem hefur beitt sér fyrir hagsmunum flóttafólks, benti nýverið á að stjórnvöld hafi ekki staðið við gefin loforð í fyrra um að veita 85 einstaklingum, meðal annars frá Afganistan, skjól hér á landi. „Auðvitað vill maður að það séu ekki bara yfirlýsingar, maður vill að það fylgi þessu aðgerðir,“ segir Brynja Huld.

„Við sem NATO-þjóð og þjóð sem segist vera með jafnréttismál sem aðaláherslu í sinni utanríkisstefnu, þá ber okkur hreinlega siðferðisleg skylda til að standa við það gagnvart Afgönskum konum og sýna það í verki að konur, friður og öryggi séu ekki einungis falleg orð í stefnuskjali á síðu Stjórnarráðsins.“