Ís­land er nú appel­sínu­gult á korti Sótt­varna­stofnunar Evrópu, ECDC, en kortið er upp­fært viku­lega með tölum um 14 daga ný­gengi smita. Þegar kortið var upp­fært í síðustu viku var Ís­land grænt á kortinu þar sem ný­gengi smita var minna en 75 en nú er ný­gengi smita tæp­lega 173.

Ís­land var lengi vel grænt á kortinu en nú er sagan önnur.

Þar sem smitum hefur fjölgað tölu­vert verður Ís­land rautt í næstu viku óháð því hversu mörg smit greinast á næstu dögum. Jafn­vel þótt engin smit myndu greinast næstu daga verður ný­gengi smita yfir 200 við út­gáfu kortsins í næstu viku. Nú er 14 daga nýgengi 249.

Land eða svæði telst rautt á korti Sótt­varna­stofnunar Evrópu ef ný­gengi smita er meira en 200 en minna en 500 á hverja 100 þúsund íbúa. Einnig getur land talist rautt ef ný­gengi er á bilinu 75 til 200 og hlut­fall já­kvæðra sýna er meira en 4 prósent. Svæði geta einnig verið flokkuð sem dökk rauð ef 14 daga ný­gengi er meira en 500 á hverja hundrað þúsund íbúa.

Annars staðar í Evrópu virðist staðan einnig versna, til að mynda í Frakk­landi og í Dan­mörku, þar sem mörg svæði eru nú orðin rauð. Nokkur svæði í Noregi og á Ítalíu hækka einnig á listanum og eru nú gul og má sömu sögu segja víðar.

Delta-afbrigði veirunnar, sem er talið mun meira smitandi en fyrri afbrigði, veldur nú miklum usla í Evrópu og víðar og glíma mörg lönd við enn eina bylgjuna.