Ís­land hefur verið rautt á korti Sótt­varna­stofnunar Evrópu, ECDC, í rúman mánuð en það hafði verið flokkað sem grænt í lengri tíma áður en það varð appel­sínu­gult í lok júlí og síðan rautt í byrjun ágúst. Upp­færð kort eru birt viku­lega á fimmtu­dögum og er Ís­land enn rautt í nýjasta kortinu sem birt var í morgun.

Mögu­legt er þó að Ís­land verði appel­sínu­gult í næsta korti þar sem ný­gengi smita hefur lækkað hratt og er um þessar mundir 190,1. Haldist ný­gengi undir 200 fram til næsta þriðju­dags, og hlut­fall já­kvæðra sýna verði minna en fjögur prósent, fer Ís­land niður um flokk.

Ekki farið undir 200 í einn og hálfan mánuð

Til að land sé flokkað sem appel­sínu­gult þarf 14 daga ný­gengi að vera minna en 50 ef hlut­fall já­kvæðra sýna er yfir fjögur prósent, milli 50 og 75 ef já­kvætt hlut­fall er meira en eitt prósent, eða ef ný­gengi er 75 til 200 og hlut­fall já­kvæðra sýna er minna en fjögur prósent.

ECDC safnar upp­lýsingum um fjór­tán daga ný­gengi til þriðju­dags í hverri viku og er miðað við þær upp­lýsingar í kortinu sem birt er á fimmtu­dögum. Þess vegna er Ís­land enn rautt, þrátt fyrir að ný­gengi sé nú undir 200 og hlut­fall já­kvæðra sýna er minna en fjögur prósent, þar sem það var yfir 200 á þriðju­dag.

Fjór­tán daga ný­gengi smita á hverja 100 þúsund íbúa á Ís­landi fór í dag undir 200 í fyrsta sinn frá 26. júlí síðast­liðnum, þegar fjórða bylgja far­aldursins var farin að sækja í sig veðrið en þegar mest á lét fór ný­gengi yfir 430. Sveiflur eru á fjölda smita milli daga en far­aldurinn er engu að síður á hægri niður­leið.

Mega að meðaltali koma upp 60 smit á dag

Það er ekki ó­mögu­legt að ný­gengi hækki aftur, til að mynda ef það koma upp stórar hóp­sýkingar, en ef miðað er við tölurnar fjór­tán daga aftur í tímann frá næst­komandi þriðju­degi mega að meðal­tali koma upp rétt rúm­lega 60 smit á dag til að það verði á­fram undir 200.

Í heildina mega ekki koma upp fleiri en 309 smit næstu fimm daga til að ný­gengi verði undir 200, ef miðað er við reikniformúlu ECDC, en síðustu níu daga hafa 419 manns greinst með veiruna.

Þar sem smitum hefur fækkað tölu­vert síðast­liðna daga er því alls ekki ó­lík­legt að ný­gengi á Ís­landi verði undir 200 næsta þriðju­dag og því appel­sínu­gult á kortinu, að því gefnu að hlut­fall já­kvæðra sýna verði á­fram undir fjögur prósent.

Hér fyrir neðan má sjá kortið sem ECDC birti í dag: