„Þegar Bandaríkjamenn fara þá voru þeir búnir að fá sig algjörlega fullsadda. Þeir voru búnir að standa í því frá árinu 1992 að reyna að komast frá landinu en það tókst ekki fyrr en 2006 og í millitíðinni fóru fram allskonar viðræður.“

Þetta segir Friðþór Eydal um brottför bandaríska varnarliðsins frá Íslandi. Friðþór, sem starfaði um langt árabil í aðalstöðvum varnarliðsins og var upplýsingafulltrúi þess, ræddi öryggimál Íslands í þættinum Saga og samfélag á Hringbraut í kvöld.

„Ísland verður ekki dregið inn í nafla alheimsins út af einhverju sem er að gerast í Úkraínu þótt að það séu stórviðburðir.“

Friðþór segir hernaðarógnina hafa enga verið eftir lok kalda stríðsins. Dálítil uppbygging hafi átt sér stað á Keflavíkurflugvelli síðustu árin en það sé ekkert stórvægilegt og í reynd sé ekki loftrýmisgæsla yfir landinu heldur eigi sér aðeins stað æfing í loftrýmisgæslu enda gæslan ekki stöðug.

Engin þörf á lengri veru

„Það sannaðist eftir að Varnarliðið fór að það var engin þörf á þessari viðveru í landinu ... Það er leitt til þess að vita að menn komist ekki upp úr þeim hjólförum að þeir hefðu aldrei átt að fara með orustuþoturnar frá landinu því eins og ég segi: sagan kennir okkur að það var algjörlega hárrétt ákvörðun á þeim tíma og hefði mátt gerast strax árið 1992,“ greinir Friðþór frá.

Breytir engu

Aðspurður hvort Úkraínustríðið núna breyti einhverju þar um, segir hann svo ekki vera.

„Það breytir engu. Ísland verður ekki dregið inn í nafla alheimsins út af einhverju sem er að gerast í Úkraínu þótt að það séu stórviðburðir.“

Saga og samfélag er sýnt í línulegri dagskrá Kl.19.30 - Þátturinn er í umsjón Björns Jóns Bragasonar og vikulega á dagskrá á miðvikudögum.