Utan­ríkis­ráð­herra hefur á­kveðið að verja þrjá­tíu milljónum króna til að­stoðar við flótta­fólk frá Venesúela með stuðningi við starf­semi Flótta­manna­stofnunar Sam­einuðu þjóðanna. Er það til við­bótar tuttugu milljóna króna fram­lagi sem var ráð­stafað til hjálpar flótta­fólki frá Venesúela í sam­starfi við SOS-Barna­þorp í lok janúar. 

Fyrr í dag ræddi Guð­laugur Þór Þórðar­son utan­ríkis­ráð­herra við Juan Guaidó, for­seta þjóð­þings Venesúela, þar sem hann greindi honum frá stuðningi ríkis­stjórnar Ís­lands við hann sem for­seta til bráða­birgða og fram­lagi Ís­lands til mann­úðar­að­stoðar. 

„Við ræddum al­mennt um stöðuna í Venesúela og mikil­vægi þess að al­þjóða­sam­fé­lagið beiti sér á­fram fyrir frjálsum og frið­sam­legum kosningum í Venesúela. Það var gott að geta greint frá fjár­hags­stuðningi okkar við flótta­fólk frá Venesúela, enda þörfin brýn,“ sagði Guð­laugur Þór en greint er frá á vef Stjórnarráðsins.

Þeir Guð­laugur Þór ræddu einnig á­fram­haldandi frið­sæl mót­mæli í Venesúela og að­gerðir stjórnar Nicolasar Maduro, sem meðal annars hefur komið í veg fyrir að mann­úðar­að­stoð berist þeim sem á þurfa að halda. 

Áður hafði Guð­laugur Þór rætt við Oswaldo Perez og Maríu Carolinu Os­orio frá Venesúela en þau eru bú­sett er hér á landi. Þau höfðu sína sögu að segja um hvernig á­standið hefur hríð­versnað í Venesúela. Hita­beltis­sjúk­dómar sem ekki hafa sést í landinu láta nú á sér kræla og van­næring og lyfja­skortur veldur aukinni tíðni dauðs­falla bæði meðal barna og full­orðinna. 

Eins og fram hefur komið lýsti Guð­laugur Þór yfir stuðningi ís­lenskra stjórn­valda við Juan Guaidó sem bráða­birgða­for­seta Venesúela þann 4. febrúar síðast­liðinn, um leið og hann skoraði á þar­lend stjórn­völd að efna til frjálsra og lýð­ræðis­legra kosninga í sam­ræmi við vilja þjóðarinnar.