„Við ákváðum bara að breyta til,“ segir útvarpsmaðurinn Logi Bergmann Eiðsson í samtali við Fréttablaðið. Friðrika Hjördís Geirsdóttir tilkynnti á Facebook nú í dag að komið væri að leiðarlokum í morgunþættinum Ísland vaknar, á K100 í Hádegismóum.

„Þá er komið að leiðarlokum hjá okkur þríeykinu í morgunþættinum Ísland vaknar,“ segir Friðrika á Facebook og merkir meðstjórnendur sína Rúnar Frey Gíslason og Loga Bergmann. „Aldrei hefði mig grunað að ég ætti eftir að taka svona miklu ástfóstri við útvarpsmiðilinn og nokkuð viss um að þetta er ekki síðasta verkefnið sem ég geri á því sviði.“

Logi segir í samtali við Fréttablaðið að hann sé ekki á förum frá Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Hann segir það ekki hafa hentað sér vel að vera svona snemma á fótum, en þátturinn hefur hafist korteri fyrir klukkan sjö á morgnanna. „Það er álag að vera á þessum tíma. Tíminn var ekki að gera neitt sérstakt fyrir mig.“

Þátturinn hóf göngu sína í mars. Síðasti þátturinn var í morgun.

Spurður hvað taki við svarar Logi því til að það skýrist sennilega mjög fljótlega. „Ég kem inn á öðrum tíma,“ segir hann. „Það kemur bara í ljós. Ég er ekkert að hætta á Mogganum.“