Þórólfur Guðnason talaði um rannsóknir og þróun á bóluefni gegn Covid-19 á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Hann segir að margir bóluefnaframleiðendur vinni nú að því að finna bóluefni gegn COVID-19 en segir að hingað til hafi vantað samhæfingu. Ísland tekur þátt í verkefni á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og mun fá bólefni þegar að því kemur.

„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vinnur nú að því að samhæfa þessa leit. Framleiðendur hafa sammælst um að tryggja réttláta dreifingu milli landa. Þetta verkefni á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar heitir COVAX og Ísland er með í þessu."

Níu framleiðendur líklegir til árangurs

Í verkefninu hafa verið valdir níu framleiðendur til samstarfs sem þykja líklegir til að ná árangri. Sex þeirra eru nú með bóluefni í klínískri rannsókn.

„Markmiðið með þessari samvinnu er að að 20 prósent íbúa þeirra landa sem taka þátt í verkefninu verði bólusettir fyrir lok árs 2021. Í dag hafa áttatíu ríki lýst yfir áhuga á að taka þátt í þessu verkefni, þar á meðal öll Norðurlöndin.”

Hver einstaklingur þarf tvær bólusetningar til að fá fulla vörn og er áætlað að kostnaður við hvern skammt verði um fimm þúsund íslenskar krónur. Kostnaðurinn við að bólusetja 20 prósent landsmanna gæti því orðið um 700 milljónir króna.

Í svari við spurningu blaðamanns segir Þórólfur of snemmt að segja til um hvaða einstaklingar verði í forgangi þegar bóluefnið kemur til landsins.

„Það er yfirleitt þannig að einstaklingar í áhættuhópum og veikir einstaklingar ásamt heilbrigðisstarfsfólki ganga fyrir þegar það kemur að bólusetningu. En það er of snemmt að segja til um það núna. Það verður einn af höfuðverkjum sóttvarnarlæknis að taka þá ákvörðun."

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gerir ekki ráð fyrir að það verði mikið framboð á bóluefni fyrr en í lok næsta árs.

„Það er í samræmi við það sem talað hefur verið um frá byrjun. Það tekur langan tíma að þróa, framleiða, rannsaka og markaðssetja bóluefni," segir Þórólfur að lokum.