Breski hermaðurinn Eric Gray skrifaði bréf til fjölskyldu sinnar árið 1941 skömmu eftir að hafa verið fluttur til Íslands eftir hernámið. Bréfið varpar áhugaverðu ljósi á Ísland fyrri tíma.

Bréf sem breski hermaðurinn Eric Gray sendi fjölskyldu sinni skömmu eftir komu hans hingað til lands síðla vetrar 1941 varpar skemmtilegu ljósi á Ísland og Íslendinga í augum breskra hermanna á hernámsárunum.

Sonur Erics, Jeffrey, setti sig í samband við Fréttablaðið á dögunum eftir að hafa fundið bréf föður síns í gömlum hirslum. Eric, sem var fæddur í ágúst árið 1914, sigldi til Íslands í mars 1941, eða tíu mánuðum eftir að Bretar hernámu Ísland eftir að seinni heimsstyrjöldin braust út.

Færður óvænt til Íslands

Í samtali við Fréttablaðið segir Jeffrey að faðir hans, þá 26 ára gamall, hafi aldrei ferðast utan Bretlandseyja þegar að Íslandsferðinni kom. „Það lengsta sem hann hafði farið var til Blackpool á vesturströndinni,“ segir Jeffrey en faðir hans ólst upp í þorpinu Standish, skammt frá Wigan í Lancashire-sýslu, þar sem hann hlaut hefðbundna grunnmenntun til 15 ára aldurs.

Að skólagöngu lokinni vann hann ýmis verslunarstörf en árið 1940 var hann fyrst kallaður í herinn. Fyrstu mánuðina þjónaði hann Konunglega breska flughernum þar sem hann hlaut meðal annars þjálfun sem slökkviliðsmaður. „Hann gerði fastlega ráð fyrir því að vera á Bretlandseyjum til stríðsloka og það kom honum verulega á óvart þegar honum var tilkynnt að hann þyrfti að gegna herþjónustu erlendis. Hann var svo enn meira undrandi þegar hann komst að því að um Ísland væri að ræða.“

Ísland hefur vafalítið verið nokkuð framandi staður í augum hermanna sem komu hingað til lands. Eric virðist þó hafa verið nokkuð hrifinn af landi og þjóð.
Mynd/Úr einkasafni

Vissu lítið um Ísland

Jeffrey segir að nánustu aðstandendur Erics, einkum móðir hans, hafi verið mjög forvitin um hagi þessara skrýtnu eyjarskeggja norður af Bretlandseyjum sem þau vissu lítið sem ekkert um. „Hann lofaði að skrifa þeim og lýsa landi og þjóð og segja frá því sem fyrir augu bar; landslagi, veðri, efnahagsástandi og fólkinu almennt,“ segir hann. Athygli vekur að Eric mátti ekki nefna hvar hann nákvæmlega var staddur. Í bréfinu er talað um „helsta bæinn“ á Íslandi, höfuðstaðinn Reykjavík. Þá mátti hann ekki heldur nefna nafnið á skipinu sem flutti hermennina til landsins.

Eiginkona Erics og móðir Jeffreys starfaði á þessum árum sem saumakona og því er að finna í bréfinu nokkuð ítarlegar lýsingar á klæðaburði Íslendinga. „Hann vissi að hún hefði gaman af því að fræðast meira um klæðnaðinn og það er áhugavert að lesa þessar lýsingar hans.“

Í bréfinu talar Eric sérstaklega um að kveikt hafi verið á ljósastaurum Reykjavíkur þegar kvölda tók. Hann átti ekki að venjast því frá Englandi því eftir að stríðið braust út var slökkt á ljósastaurum í borgum og bæjum til að verjast mögulegum loftárásum.

Bréfið sem Eric skrifaði til fjölskyldu sinnar var alls 11 blaðsíður og þar lýsti hann Íslandi og Íslendingum á ítarlegan hátt.
Mynd/Úr einkasafni

Sjóveikir um borð

Eric sigldi til Íslands ásamt nokkur hundruð hermönnum í seinni hluta marsmánaðar 1941. Segir Jeffrey að tveir tundurspillar hafi fylgt skipinu til Íslands. „Ferðin gekk vel og skipið komst til Íslands nokkuð örugglega. Sem betur fer var veður ágætt og faðir minn fann ekki fyrir sjóveiki, ólíkt öðrum hermönnum um borð,“ segir hann.

Á meðan á dvöl Erics stóð á Íslandi vann hann einkum í fjarskiptastöðvum breska hersins hér á landi, en eins og kunnugt er tóku Bandaríkjamenn við hervörslu hér á landi síðla árs 1941. Hér að neðan má lesa útdrætti úr bréfinu þar sem Eric talar meðal annars um náttúruna, höfuðstaðinn Reykjavík og Íslendinga almennt.

28. mars 1941

„Elskuleg eiginkona mín,

Ég er kominn til Íslands heilu og höldnu og veit ekki alveg hvað bíður mín hér. Um það leyti sem við vöknuðum á [ritskoðað] vorum við farnir að sjá til lands og lögðumst við að bryggju í hádeginu. Ég má ekki segja nákvæmlega hvar ég er eða nafnið á skipinu sem ég er á.

Það var fallegt um að litast þegar við sigldum til hafnar. Fjöll, þakin snjó, voru allt í kringum okkur en á jörðu niðri var enginn snjór. Veðrið hér er svipað veðrinu heima og enn sem komið er höfum við ekki þurft að klæðast aukafötum. Morguninn eftir að við komum var kalt og það var frost. Við þurfum að ganga dágóðan spöl til að komast í mat.“

Reykjavík

„Staðurinn sem ég er á er nokkuð sérstakur. Húsin hér eru flest byggð úr múrsteinum og bárujárni, sum eru skringileg í laginu og staðsett á einkennilegum stöðum. Þetta er í raun eins og bær þar sem einhvers konar gullæði hefur ríkt og við sjáum stundum á myndum. Hér eru engir alvöru vegir – það eru vissulega vegir en þeir eru allir holóttir og forugir. Sumir staðir hér í bæ eru nútímalegir en aðrir virðast mjög gamlir. Samt eru oft flottir bílar fyrir utan þessi hús sem leggja uppi á gangstéttum, ef gangstéttar skyldi kalla. Bílar sem koma af hliðargötum njóta forgangs og þeim er ekið býsna hratt. Í mínum augum er þetta mjög furðulegur staður, öðruvísi þó á kvöldin vegna ljósanna. Hér eru ljósin ekki slökkt.“

Fólkið

„Við blöndum ekki geði við heimamenn heldur sinnum okkar verkefnum. Það sama á við um Íslendinga. Það er dálítið fyndið að heyra þá tala og við tölum stundum við krakkana. Konurnar hér eru heilt yfir glæsilegar en það skiptir engu máli fyrir mig, elskan. Þær klæðast stundum þjóðbúningum og nær pilsið, sem er yfirleitt svart eða dökkt, niður að ökklum. Konurnar eru oft með hárið í fléttu og stundum með einhverskonar hatt á höfði. Í augum okkar eru þær dálítið gamaldags en samt nokkuð flottar. Þær blanda mjög sjaldan geði við hermenn úti á götu.

Það er amerískur bragur yfir klæðaburði karlanna og er hann nokkuð frábrugðinn þeim enska. Hér virðast karlarnir njóta forgangs.

Kvöld eitt fyrir skemmstu var haldinn dansleikur hér í bæ sem ég fór að vísu ekki á. Þar brutust út slagsmál milli heimamanna og komu lögreglumenn og handtóku þá. Hermennirnir sem hér eru segja að þetta sé nokkuð algengt. Hér eru nokkrir herlögreglumenn sem geta brugðist við ef til átaka kemur milli hermanna og heimamanna. Ég veit ekki hvernig hermennirnir bera sig að við kvenmenn á böllunum því konurnar hér blanda ekki geði við okkur úti á götu. Mig grunar samt að fólkið hér sé vinalegra en það var áður og mjög margir geta talað ensku.“

Efnahagur

„Það er mjög dýrt hérna en við erum með okkar eigin verslun þar sem við getum keypt helstu nauðsynjar. Það er öruggara að gera það þannig. Það hefur komið fyrir að við höfum þurft að skipta peningunum okkar í íslenska peninga. Íslenska myntkerfið er dálítið flókið og það borgar sig að vera fljótur að læra inn á það. Margar verslanir hér bjóða upp á amerískar vörur og sumar bjóða upp á vörur frá Englandi.

Aðalatvinnuvegurinn hér er sjávarútvegur og það sést um leið og maður kemur að höfninni. Hér eru einn eða tveir staðir hér sem selja fisk og franskar og það getur vel verið að ég prófi þá fljótlega. Þetta er svona það helsta sem ég hef að segja að sinni.

Þinn,
Eric Gray“