Ísland skorar lægst Evrópuþjóða í félagsfærni barna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Unicef. Fram kemur í skýrslunni að íslensk börn séu vel undir meðallagi í hinum vestræna heimi þegar kemur að velferð barna. Er Ísland aðeins í 24. sæti af þeim 38 löndum sem rannsóknin náði til. Einu sæti fyrir neðan Eistland og einu fyrir ofan Rúmeníu.

Þegar litið er til andlegrar heilsu segja flest íslensk börn að þeim líði almennt vel, 81 prósenti af öllum 15 ára börnum. Þrátt fyrir þetta er sjálfsvígshlutfall 15 til 19 ára með því allra hæsta sem gerist, eða tæplega tíu á hver 100 þúsund á ári.

Íslensk börn eru í meðaltali þegar að kemur að offitu barna en ánægja með líkama sinn er meiri hjá íslenskum börnum en nokkurs staðar annars staðar. Heilt á litið eru stúlkur óánægðari með líkama sinn en drengir, en munurinn milli kynjanna er þó minni hér á Íslandi en víðast hvar.

Erfiðleikar í lestri hafa verið mikið til umræðu á undanförnum árum og koma þeir einnig fram í þessari skýrslu. Aðeins 62 prósent af íslenskum börnum hafa viðmiðunarfærni í lestri og stærðfræði við 15 ára aldur.

Félagsfærni er þó enn þá meira vandamál hér á landi og skorar Ísland lægst allra Evrópuþjóða. Aðeins í Japan og Síle segjast börn eiga erfiðara með að eignast vini.

Ingibjörg Karlsdóttir félagsráðgjafi, sem unnið hefur að málefnum barna og unglinga í tæp þrjátíu ár, segir stöðu Íslands ekki koma á óvart. Félagsfærni hafi ekki verið sinnt nógu vel hér á landi.

Ásamt því að starfa á Barna- og unglingageðdeild Landspítala heldur Ingibjörg úti PEERS-námskeiðum í félagsfærni fyrir börn og unglinga ásamt Guðrúnu Jóhönnu Benediktsdóttur iðjuþjálfa, bæði í Reykjavík og í fjarkennslu fyrir þá sem búa á landsbyggðinni og erlendis. „Það er metaðsókn og við erum með börn á biðlista. Við finnum fyrir því að það er aukinn kvíði og félagsfælni hjá börnum.“

Ingibjörg segir ástæðurnar saman­standa af mörgum samverkandi þáttum. „Eitt er fjölgun barna með ýmsar greiningar og raskanir sem auka líkurnar á skertri félagsfærni. Á bilinu fimm til tíu prósent barna eru með ADHD-greiningar. Um tvö prósent eru á einhverfurófi, það er hægt að setja beint samasemmerki milli þess og slakrar félagsfærni,“ segir Ingibjörg. „Svo eru það tæknibreytingar. Við finnum mjög fyrir því á BUGL að börn eru að ánetj­ast gsm-símanum og tölvunni. Það getur þróast þannig að tölvan verður þeirra besti vinur, þá eru þau síður að hitta börn í raunheimum á meðan. Þá er hætt við að þau missi niður hæfnina til félagslegra samskipta.“

Alvarlegar afleiðingar fylgja félagslegri einangrun barna og unglinga. „Það er hætta á að þau þrói með sér alvarlegri geðræn vandamál. Hættan á skólaforðun eykst og brottfalli úr námi. Svo eykst líka hættan á að þau leiðist út í fíkn af ýmsu tagi. Félagslega einangruð börn og unglingar eru líklegri til að verða skotmörk eineltis í skólum og óprúttinna aðila á netinu.“

Ingibjörg segir að það sé þó ljós í myrkrinu. „Það er hægt að kenna börnum, unglingum og ungmennum félagsfærni, við gerum það með gagnreyndum PEERS-námskeiðum í félagsfærni þar sem foreldrar taka þátt í námskeiðinu og læra að verða félagsþjálfar barnanna.“