Alls starfa 2,2 prósent Íslendinga við íþróttir. Er það langhæsta hlutfallið í Evrópu. Á eftir Íslendingum eru Svíar með 1,6 prósent. Þetta kemur fram hjá Eurostat, tölfræðistofnun Evrópusambandsins. Á þetta við um íþróttaþjálfara, einkaþjálfara, íþróttakennara, atvinnumenn í íþróttum og fleiri.

Íslendingar skera sig algerlega úr því í flestum Evrópulöndum er hlutfallið á bilinu 0,5 til 1 prósent. Undanfarin fimm ár hefur hlutfallið hér hækkað um 0,2 prósent. Almennt eru Norðurlöndin í hærri kantinum en fæstir starfa við íþróttir í Austur-Evrópu og á Balkanskaga.

Nokkuð fleiri karlmenn starfa við íþróttir á Íslandi en konur, eða 2.300 miðað við 1.900 konur. Hlutfallið er mun hærra hjá yngra fólki en nærri helmingur allra sem starfa í íþróttum er innan við þrítugt.

Mikil þátttaka í íþróttum og hátt hlutfall menntaðra starfsmanna er ein af undirstöðunum í hinu svokallaða „íslenska módeli“ í forvörnum sem Rannsóknir og greining hafa haldið utan um.

Vegna árangurs Íslendinga við að takast á við neyslu barna og unglinga hafa ýmsar erlendar borgarstjórnir og sveitarfélög tekið upp þá stefnu.