Guð­laugur Þór Þórðar­son, utan­ríkis- og þróunar­sam­vinnu­ráð­herra, tók þá á­kvörðun í gæt að ís­lensk stjórn­völd myndu veita tuttugu milljónum króna til mat­væla­að­stoðar í Líbanon vegna vegna ham­fara­sprenginganna í Beirút í ný­liðinni viku.

Yfir tvö hundruð manns létust af völdum sprengingarinnar og margra er enn saknað. Þá var eyði­leggingar­máttur sprengjunnar slíkur að yfir þrjú hundruð þúsund heimili skemmdust og voru sum hver jöfnuð við jörðu.

Hafnarsvæði Beirut gjöreyðilagðist í sprengingunni.
Fréttablaðið/Getty

Ber­sýni­leg neyð

„Strax eftir sprengingarnar varð ljóst að þörfin fyrir neyðar- og mann­úðar­að­stoð yrði gríðar­leg og því hétum við okkar stuðningi um leið,“ segir Guð­laugur Þór Þórðar­son, utan­ríkis- og þróunar­sam­vinnu­ráð­herra.

„Nú liggur fyrir að okkar fram­lag nýtist best á sviði mat­væla­að­stoðar og því hef ég á­kveðið að veita tuttugu milljónum króna sér­stak­lega til Mat­væla­á­ætlunarinnar svo styðja megi Líbana á þessum erfiðu tímum.“

Matar­birgðir horfnar

Í sprengingunum eyði­lagðist meðal annars mikil­vægasta inn­flutnings­höfn landsins auk korn­forða og annarra mat­væla­birgða sem geymd voru á hafnar­svæðinu. Fæðu­öryggi lands­manna er því afar ó­tryggt.

Fjár­fram­lag Ís­lands mun því vera sent til Mat­væla­á­ætlunar Sam­einuðu þjóðanna (WFP) og er ætlað til að tryggja fæðu­öryggi í Líbanon. Fram­lagið kemur til við­bótar því fé sem stjórn­völd verja nú þegar til mann­úðað­stoðar í landinu.