Íslensk stjórnvöld hafa nú skrifað undir samning við lyfjaframleiðandann Janssen um kaup á 235 þúsund skömmtum af bóluefni við COVID-19 en um er að ræða þriðja samninginn um kaup á bóluefnum sem íslensk stjórnvöld skrifa undir. Ísland mun fá hlutfallslega sama magn bóluefna og öllum öðrum þjóðum sem taka þátt í samstarfi Evrópuþjóða um kaup á bóluefnum.

Ísland hefur þegar samið um skammta fyrir 85 þúsund einstaklinga frá Pfizer og BioNTech auk þess sem samið var við AstraZeneca um skammta fyrir 115 þúsund einstaklinga. Lyfjastofnun hefur veitt bóluefni Pfizer markaðsleyfi og munu fyrstu skammtarnir koma fyrir áramót. Þá verður samningur við Moderna undirritaður þann 31. desember næstkomandi.

Enn í prófunum

Líkt og greint var frá fyrr í dag er bóluefni Janssen það eina sem hefur ekki lokið við fasa 3 prófanir, af þeim fjórum bóluefnum sem Ísland hefur þegar samið um eða stefnir á að semja um. Gert er ráð fyrir að Lyfjastofnun Evrópu taki ákvörðun um bóluefnið í febrúar og afhending verði á þriðja ársfjórðungi.

Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram liggur fullvissa um bóluefnið og virkni þess ekki fyrir fyrr en stofnunin hefur gefið út álit sitt. „Þegar bóluefni er komið fasa 3 í prófunum þýðir það að um stórar rannsóknir er að ræða þar sem fjöldi sjálfboðaliða hleypur yfirleit á tugum þúsunda.“

„Á þessu stigi er sérstaklega metið hversu mikla vernd bóluefnið veitir í samanburði við lyfleysu eða aðra meðferð, sem og öryggi bóluefnisins,“ segir í svari ráðuneytisins.