Ástæða er til að endurskoða lista íslenskra heilbrigðisyfirvalda yfir áhættusvæði í ljósi fjölgunar smita í nágrannaríkjum.


Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi í dag. Sem stendur eru Danmörk, Noregur, Finnland, Þýskaland, Færeyjar og Grænland ekki á umræddum lista og þarf fólk þaðan hvorki að fara í sóttkví né sýnatöku við komuna til landsins.

„Vandinn er sá að þessi tilfelli sem eru að koma upp í þessum löndum eru svæðisbundin í mörgum þeirra og það er kannski erfitt að yfirfæra það á allt landið,“ sagði Þórólfur.

Ísland orðið áhættusvæði samkvæmt eigin skilgreiningu


Sé miðað við þá skilgreiningu sem notuð hafi verið hér, það er 10 ný smit á hverja 100 þúsund íbúa á síðustu 14 daga (nýgengi), geti Ísland raunar sjálft talist sem áhættusvæði.

„Í raun og veru erum við komin af lágáhættusvæði ef við viljum skilgreina okkur þannig,“ bætti hann við en nýgengi innanlandssmita er nú 12 hér á landi.

Þórólfur sagði að á meðan fá smit greinist á landamærunum þurfi að fara varlega í að breyta reglunum eða skilgreiningum landa fram og til baka.

Ekki er vitað til þess að tilfærsla Íslands upp fyrir þessi mörk hafi haft áhrif á ferðalög Íslendinga erlendis, að sögn Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Leggst gegn víðtækri grímunotkun


Þórólfur segist alls ekki vilja stuðla að því að fólk noti almennt andlitsgrímur þegar það er á ferli í samfélaginu.

„Ég held að það muni ekki skila miklum árangri. Það er mjög kostnaðarsamt og getur jafnvel gefið falskt öryggi.“

Frekar eigi að styðjast við þau tilmæli sem tóku gildi í gær.

„Ég held að við eigum að halda okkur við þær leiðbeiningar að þegar fólk er í þröngu rými þar sem ekki er hægt að viðhafa tveggja metra regluna eða aðrar sóttvarnir þá geti grímur komið að gagni.“

Óvíssa með grímunotkun í Strætó

Mikill hringlandaháttur var á skilaboðum frá stjórnendum Strætó í kjölfar þess að stjórnvöld kynntu hertari sóttvarnaraðgerðir á fimmtudag.

Fyrst var gefið út að allir farþegar þyrftu að hafa grímu og þau tilmæli áréttuð eftir að þríeykið sagði að ekki væri skylda að bera grímur í ferðum á höfuðborgarsvæðinu.

Síðdegis í gær skiptu stjórnendur Strætó svo skyndilega um tón eftir fund með sóttvarnaryfirvöldum og hættu við að meina grímulausu fólki að koma um borð í Strætó.

Enn er þó mælt með grímunotkun ef vagn fyllist og er slíkt skylda um borð í landsbyggðarstrætó.