Löggæsluyfirvöld í Grikklandi og á Íslandi báru saman bækur sínar um nálgun lögreglu í heimilisofbeldismálum í síðustu viku.

Niðurstöður starfs- og vinnuhópa, annars vegar frá European Anti-Violence Network (EVAN) og ríkislögreglustjóra voru kynntar á föstudag á blaðamannafundi í Grikklandi. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri og Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn tóku til máls á fundinum fyrir hönd Íslands. Lögregluembættið sendi út tilkynningu vegna samstarfsins.

Í vinnuhópum sátu fulltrúar grískra stjórnvalda og félagasamtaka sem veita þolendum heimilisofbeldis stuðning og vernd og fulltrúar frá embætti ríkislögreglustjóra.

Sigríður Björk, segir í samtali við Fréttablaðið að vinnuhóparnir hafi starfað í gegnum fjarfundabúnað í fimm daga í síðustu viku. Samstarfið hafi verið mjög áhugavert en borin voru saman kerfi og aðferðafræði lögregluyfirvalda í löndunum tveimur hvað varðar heimilisofbeldi.

Ólík lönd

Sigríður segir að samstarfið milli landanna hafi komið til fyrir rúmu ári síðan þegar sendinefndir landanna hittust í utanríkisráðuneytinu hérlendis.

„Grikkir óskuðu eftir samstarfinu á þeim grunni að við höfum verið að taka í gegn okkar nálgun á heimilisofbeldi og höfðu áhuga á að fara í samstarf með okkur, skoða hvort það væri einhver samleið og hvað við gætum lært hvort af öðru, segir Sigríður.

Hún segir að mikið sé um alvarleg heimilisofbeldismál í Grikklandi, eins og í öllum löndum. „Því miður er þetta vá sem er á mörgum stöðum. Lögreglan hér á landi hefur náð talsvert góðum árangri. Við tökum þessu líka mjög alvarlega og erum t.d. búin að taka á ástandinu núna vegna heimsfaraldursins þar sem heimilisofbeldi hefur aukist, mjög föstum tökum. Þetta er áhugavert samstarfsverkefni en það eru auðvitað mjög ólíkar aðstæður hér og í Grikklandi," bætir Sigríður við.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri og Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn og sviðstjóri alþjóðadeildar embættisins tóku til máls auk Mariu Syrengela og Stylianis Varduampasis, yfirmanni almennrar löggæslu lögreglunnar í Grikklandi.
Ljósmynd/Lögreglan

Á blaðamannafundinum kynntu sendinefndir landanna tveggja þá aðferðafræði sem notuð er til að vernda og veita góða þjónustu fyrir þolendur heimilisofbeldis, sérstaklega konur og börn. Rætt var ítarlega um ástandið í Grikklandi, þarfirnar og þær áskoranir sem bæði löndin standa frammi fyrir til að bæta þjónustu sem þolendum heimilisofbeldis er veitt.

Þá voru einnig ræddar leiðir til að stuðla að árangursríku samstarfi landanna tveggja og frekari samvinnu í málaflokknum. Í framhaldi af þessum fundi er stefnt stefnt að því að vinna saman innan ramma Uppbyggingarsjóðs EES og sækja styrk þangað til áframhaldandi samstarfs og þekkingarmiðlunar.

Málið hefur vakið athygli á Grikklandi en meðal annars var fjallað um málið í gríska Marie Claire þar sem má sjá Sigríði Björk.