Ísland er það land innan Evrópusambandsins og EES-svæðisins sem er með ströngustu skilyrðin fyrir komu ferðamanna til landsins. Þessar upplýsingar má finna á rafrænu korti á vefsíðu á vegum Evrópusambandsins. Þar er löndunum skipt í rauð, gul eða græn svæði í takt við takmarkanirnar. Ísland er eina landið sem er með rauða merkingu en öllum ferðamönnum er skylt að sæta fjórtán daga sóttkví eða undirgangast tvær skimanir fyrir kórónaveirunni auk fimm daga sóttkvíar á milli prófa.

Gul lönd í Evrópu, þar á meðal Noregur, Finnland og Þýskaland, eiga það nánast öll sameiginlegt að vera með lista yfir örugg lönd og er landið opið fyrir ferðamenn sem koma frá þessum löndum. Ferðamenn frá öðrum löndum þurfa í flestum tilvikum að undirgangast skimun á landamærum eða þá að sýna fram á vottorð fyrir mótefni gegn veirunni.

Græn lönd, þar á meðal Svíþjóð, Frakkland og Pólland, eru opin fyrir öllum ferðalöngum frá Evrópusambands- og EES-löndunum.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, SAF, segir að upplýsingarnar staðfesti það sem samtökin hafi bent á frá því að tilhögun sóttvarna á landamærunum var breytt í sumar, að Ísland sé með ströngustu ferðatakmarkanir í Evrópu. „Það er greinilegt þegar við berum til dæmis saman flug til annarra áfangastaða innan Evrópu og flug til og frá Íslandi að þessar ströngu ferðatakmarkanir hafa haft slæm áhrif á ferðalög til Íslands.“ Hann segir að sú niðurstaða hafi verið viðbúin og eitthvað sem SAF hafi varað við. „Flugum til og frá Íslandi hefur fækkað mun meira en flugi annars staðar í álfunni. Sömu sögu er að segja um aðra ferðaþjónustustarfsemi sem hrundi í kjölfarið á breytingunni,“ segir Jóhannes.