Aðeins fimm lönd í heiminum stunda blóðmerahald: Kína, Argentína, Úrúgvæ, Þýskaland og Ísland.

Starfsemin snýst um að taka blóð úr fylfullum hryssum til að vinna úr því hormónið PMSG sem er notað í framleiðslu frjósemislyfja fyrir húsdýr. Langstærsti kaupandi þessara lyfja eru erlendir verksmiðjubændur.

Ísland er þriðji stærsti framleiðandi PMSG í öllum heiminum og með talsvert stærri iðnað en Þýskaland og því langstærsti löglegi framleiðandi PMSG í Evrópu.

Þetta segir Sabrina Gurtner, fulltrúi alþjóðlegu dýraverndarsamtakanna Animal Welfare Foundation í samtali við Fréttablaðið, en hún rannsakaði blóðmerahald á Íslandi 2019 til 2021.

Samtök hennar vörpuðu ljósi á hryllilegar aðstæður í greininni í Suður-Ameríku árið 2015. Þar er fóstureyðing framkvæmd svo hægt sé að stunda blóðtöku á tveimur tímabilum á ári. Í kjölfarið hættu öll evrópsk og norður-amerísk lyfjafyrirtæki og svínabændur að versla PMSG frá Suður-Ameríku og byrjuðu að kaupa frá evrópskum framleiðendum, það er frá Íslandi.

„Öll verslun færðist frá Suður-Ameríku til Evrópu eftir 2015. En evrópski iðnaðurinn er í raun bara Ísland,“ segir Sabrina.