Bílaleiguverð hefur rúmlega tvöfaldast í faraldrinum samkvæmt greiningu bresku neytendasamtakanna Which? Meðalvikuleiga, sem kostaði 99 pund í október árið 2019, hafði hækkað í 223 í sama mánuði árið 2021. Úr rúmum 17 þúsund krónum í rúmar 39 þúsund krónur.

Verðin voru skoðuð í löndum sem breskir ferðamenn heimsækja gjarnan og ákveðnir viðmiðunarbílar notaðir. Hæsta verðið mældist 968 pund, eða rúmlega 165 þúsund krónur fyrir vikuleigu á Volkswagen Polo á Íslandi. Árið 2019 hafi almennt bílaleiguverð á Íslandi verið í kringum 300 pund, eða 50 þúsund krónur. Hækkanir eru víðast hvar yfir 100 prósentum, og í Portúgal eru þær nálægt 200 prósentum. Sums staðar eru þær þó hófstilltari, svo sem 24 prósent í Frakklandi.

Bílaleigur hér á landi hafa nefnt bílaskort sem ástæðu fyrir verðhækkunum. Leigurnar hafi losað sig við stóran hluta flotans þegar faraldurinn skall á. Nú sé verið að kaupa nýja bíla en þá sé framboðið á litlum bílum frá framleiðendum minna en áður.