Sárasóttartilfelli eru hvergi fleiri í Evrópu en á Íslandi kemur fram í nýrri skýrslu Smitsjúkdómavarna Evrópu (ECDC). Sífellt fleiri hafa greinst með sjúkdóminn á Íslandi en um er að ræða 876 prósenta aukningu frá árinu 2010.

Ísland lang efst

Ísland er í fyrsta sæti í fjölda sárasóttartilfella eða með 15,4 tilfelli á hverja 100 þúsund. Það er langt yfir meðaltali og er næsta efsta norðurlandi, Danmörk, til að mynda með 5,7. Fram kemur í skýrslunni að alls voru 33 þúsund tilfelli greind í Evrópu árið 2017 en áratugi fyrr voru þau aðeins 19 þúsund.

Sárasótt er bakteríusmit sem smitast í gegnum slímhúð eða húð og smitast oftast við óvarin kynmök. Sýktir einstaklingar eru aðallega smitandi þegar þeir eru með sár. Auðvelt er að meðhöndla sjúkdóminn eftir greiningu en án meðhöndlunar getur sárasótt leitt til dauða.

Smitast aðallega við kynmök

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur á sóttvarnasviði Landlæknis, segir, í samtali við RÚV, niðurstöðurnar ekki koma sér á óvart. Hún segir að þrátt fyrir 876 prósent aukningu hafi ekki margir greinst með sjúkdóminn hér á landi. Kamilla tekur fram að Ísland hafi farið úr 0,5 tilfellum á ári upp í 40 tilfelli og segir stórar sveiflur verða þegar íbúafjöldi er svo lítill.

Sjúkdómurinn virðist aðallega smitast með kynlífi á Íslandi og segir Kamilla það benda til þess að fólk sé ekki að stunda varið kynlíf. Hún segir að til að draga úr kynsjúkdómum þurfi fólk að fækka rekkjunautum sínum og nota smokkinn við kynmök.