Ísland er með fimmtu hæstu leigu á þriggja herbergja íbúðum í heiminum og er meðalleigan um 260 þúsund krónur.

Þetta kemur fram í nýrri úttekt á vefnum money.co.uk sem birtir reglulega verðsamanburð á milli landa. Í greininni sem birtist síðastliðinn júlí var gerður samanburður á húsaleigu í 50 löndum víða um allan heim og litið á framfærslukostnað fjögurra manna fjölskyldna. Kemur þar fram að leigukostnaður sé 31 prósent af ráðstöfunarfé hér á landi.

Leigjendur verja að jafnaði hærra hlutfalli af ráðstöfunartekjum sínum í leigu nú en undanfarin ár.
Mynd: HMS

Í mælingum HMS og Zenter á húsnæðismarkaðnum á árinu eru vísbendingar um að leigumarkaðurinn hafi minnkað, einkum í kjölfar COVID-19 faraldursins. Samkvæmt meðaltali mælinga ársins 2019 og byrjun árs 2020 voru 16,6 prósent á leigumarkaði. Eftir að faraldurinn skall á má merkja skýra breytingu á leigumarkaðnum en í mælingum í apríl, júlí og nóvember sögðust um 12,9 prósent svarenda búa í leiguhúsnæði.

Í fyrsta sæti með hæstu leiguna í heiminum er Hong Kong þar sem meðalleiga er 480 þúsund krónur, eða um 50 prósent af ráðstöfunarfé íbúa Hong Kong.

Íbúar Hong Kong eyða 50 prósent af ráðstöfunarfé sínu í leigu.
Mynd: digitaloft