Ísland heldur stöðu sinni sem besta land í heimi til að setjast í helgan stein í samkvæmt skýrslu fjárfestingafyrirtækisins Natixis, sem gert hefur slíka greiningu frá árinu 2012. Undanfarin þrjú ár hefur Ísland verið á toppi listans og í ár hækkar stuðullinn úr 82 í 83.

Mat Natixis er byggt á ýmsum þáttum eins og tekjum, langlífi, stöðu heilbrigðiskerfisins og heilbrigðistryggingum, skattheimtu, verðbólgu, stöðu ríkissjóðs, vatns- og loftgæðum og hamingju.

Þegar kemur að þjóðarhag er Ísland í 9. sæti en þar trónir Singapúr á toppnum. Í heilbrigðisþættinum hrapar Ísland um þrjú sæti og endar í því 12. Ísland er hins vegar í 6. sæti þegar kemur að umhverfis- og hreinlætisþáttum og efst þegar kemur að fjárhag íbúanna. En inni í þeim tölum eru meðal annars tekjur, tekjujöfnuður og atvinnuleysi.