Ísland gæti orðið „rautt svæði“ að mati norskra sóttvarnayfirvalda ef fram heldur sem horfir. Ef svo yrði raunin þyrftu ferðamenn frá Íslandi að fara í sóttkví við komuna til Noregs.

Frá þessu er greint á vef VG en RÚV greindi fyrst frá íslenskra miðla.

Samkvæmt skilgreiningum norskra yfirvalda þarf nýgengi smita að vera undir 20 í ríki svo það teljist sem „grænt svæði“ laust við ferðatakmarkanir.

Samkvæmt lista Sóttvarnastofnunar Evrópu, sem mörg ríki styðjast við, er nýgengi smita hér á landi 21,3.

Ísland er enn merkt grænt á lista sóttvarnayfirvalda en von er á uppfærðum lista á næstu dögum.

Frakkland og Holland í sömu stöðu

Fram kemur í frétt VG að að Frakkland og Holland eigi einnig á hættu á að verða skilgreind sem „rauð svæði.“

Þó er tekið fram að ekki sé sjálfsagt að ríki verði skilgreint rauð þegar nýgengi fer upp fyrir 20. Einnig taki norsk yfirvöld mið af hlutfalli jákvæðra sýna, álagi á gjörgæslu og sóttvarnaraðgerðum í hverju landi fyrir sig. Mögulega muni sóttvarnayfirvöld bíða og sjá áður en skilgreiningum verði breytt.

Til að mynda hafi liðið vika eftir að nýgengi í Belgíu fór yfir 20 áður en gerð var krafa um að farþegar þaðan fari í sóttkví við komuna til Noregs.