Yfir 96 prósent Íslendinga notuðu netið til að horfa á myndbönd eða lesa fréttir á þriggja mánaða kafla á síðasta ári. Um er að ræða hæsta hlutfall í Evrópu og tuttugu prósentum yfir meðaltali, samkvæmt tölum evrópsku hagstofunnar Eurostat. Ekki var tekin saman tölfræði á síðasta ári um notkun vegna tónlistarhlustunar en Ísland leiddi þann flokk árið 2019 með 85 prósentum.

Þegar kemur að áhorfi er Ísland með naumt forskot á Kýpur og Holland þar sem 95 prósent þjóðanna nýttu internetið til áhorfs á síðasta ári. Sama hlutfall, 96 prósent Íslendinga, notar internetið til að lesa fréttir eða tímarit, en meðaltalið í Evrópu þegar kemur að fréttalestri á netinu er 75 prósent.

Í tölvuleikjanotkun voru Íslendingar í sjötta sæti á eftir Hollandi, Danmörku, Möltu, Svíþjóð og Finnlandi, en 43 prósent Íslendinga notuðu netið til einhvers konar leikjaspilunar á síðasta ári, meðaltal Evrópulanda er 34 prósent.

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsu hjá Embætti landlæknis.

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsu hjá Embætti landlæknis, segir ekki hægt að gefa út viðmið eða ráðleggingar um hversu miklum tíma er hollt að verja á netinu, þar sem engar rannsóknir liggja fyrir um það. Mestu máli skipti hvernig verið sé að nota netið. Í dag er netið notað meðal annars til vinnu og kennslu, svo eru til uppbyggilegir tölvuleikir sem geta haft jákvæð áhrif.

„Við þurfum að huga að því að hreyfa okkur, hitta fólk, borða vel og sofa vel og því mikilvægt að netið eða tölvuleikir komi ekki í veg fyrir það,“ segir Dóra. „Ef við skoðum söguna, þá var varað við bókum, sjónvarpi og myndbandstækjum, við þurfum að læra að lifa með öllum nýjum tækninýjungum á uppbyggilegan hátt.“