Stundin birti í dag ítar­lega greiningu á Ís­lendingum eða ein­stak­lingum með tengsl hér á landi sem koma fyrir í Pan­dóru­skjölunum. Pan­dóru­skjölin eru saman­safn 11,9 milljón ó­líkra skjala frá fyrir­tækjum sem sér­hæfa sig í upp­setninga aflands­félaga og aflands­sjóða. Skjölunum var lekið til al­þjóð­legra sam­taka rann­sóknar­blaða­manna (ICIJ), sem deildi þeim með fjöl­miðlum um allan heim.

Í nýjasta tölu­blaði Stundarinnar kemur fram að á Ís­landi snerta Pan­dóru­skjölin jafn ó­líka hluti og vatns­verk­smiðju í Þor­láks­höfn, flug­véla­við­skipti á Tor­tóla og hýsingu kláms og fíkni­efna­sölu­síðna. Taka skal fram að ekki er ó­lög­legt að eiga og nota fé­lög í skatta­skjólum. Það sem skiptir máli er hvernig skatt­greiðslum sem snerta slík fé­lög og eig­endur þeirra er háttað.

Ís­lenskt fyrir­tæki hýsir klám og sölu lækna­dóps

Níð­klám, á­róður ný­nasista, sala stera, sterkra verkja­lyfja og milli­ganga um kaup og sölu vændis er meðal þess sem hýst er í gegnum fyrir­tækið Orangewebsite. Það er sagt vera til húsa á Klappar­stíg 7 í Reykja­vík en þar er þó ekkert vef­hýsingar­fyrir­tæki. Í Pan­dóru­skjölunum kemur hins vegar fram að fyrir­tækið IceNetwork Ltd. sér um hýsinguna en það er í eigu Ís­lendingsins Aðal­steins Péturs Karls­sonar og Finnans Henri Kal­le Johannes Vilmi, sem eru báðir bú­settir í Taí­landi.

Aðal­steinn hefur getið sér á­gætt orð sem póker­spilari en fram að þessu hefur hann ekki verið nefndur í sam­hengi við Orangewebsite og starf­semi þess.

„Ég hef ekkert að fela,“ segir hann í sam­tali við Stundina. Hann þver­tekur fyrir að vera stjórnandi fyrir­tækisins í dag, segist ekki vera meðal eig­enda og kveðst að­eins sjá um tækni­hlið fyrir­tækisins. Í gögnum sem finna má í Pan­dóru­skjölunum kemur hins vegar fram að hann var skráður stjórnandi fyrir­tækisins gagn­vart fyrir­tækja­skrá Seychelles­eyja árið 2016.

Bogi Nils Boga­son, forstjóri Icelandair.
Fréttablaðið/Ernir

Keyptu Boeing þotur í gegnum Tor­tóla

Nafn fyrir­tækis í eigu Icelandair kemur fyrir í Pan­dóru­skjölunum en fé­lagið sem var skráð í skatta­skjólinu Tor­tóla keypti þrjár Boeing 737-þotur með lánum frá Ís­lands­banka og síðar Glitni.

Tor­tóla­fé­lagið Bark­ham Associa­tes S.A var í eigu IG Invest ehf., dóttur­fé­lags Icelandair, sem var hluti af rekstri flug­véla­leigunnar Icelea­se ehf. Lánið til flug­véla­kaupanna var veitt árið 2004 og hefur fé­lagið meðal annars leigt þoturnar til Air Baltic, Aeros­vit Air­lines og Ukra­ine International Air­lines.

Icelandair gafst ekki ráð­rúm til að svara öllum spurningum Stundarinnar fyrir prentun vegna þess hve langt málið nær aftur. Bogi Nils Boga­son, nú­verandi for­stjóri Icelandair, segir þó í svörum til blaðsins að flug­fé­lagið sé á móti því að fyrir­tæki nýti sér lág­skatta­svæði til að koma í veg fyrir skatt­greiðslur.

Áður hefur verið fjallað um fé­lög í eigu Icelandair á lág­skatta­svæðunum Guerns­ey og Ber­múnda. Bogi segir að af­koma þeirra fé­laganna sé talin fram á Ís­landi og skattar greiddir hér á landi.

Bene­dikt Er­lings­son, leikstjóri Kona fer í stríð.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ú­kraínskur sígarettu­kóngur fjár­magnaði ís­lenska mynd

Í Pan­dóru­skjölunum kemur einnig fram að einn með­fram­leiðandi kvik­myndarinnar Kona fer í stríð eftir Bene­dikt Er­lings­son sækir í aflands­sjóð til að fjár­magna kvik­mynda­verk­efni sín.

Tor­tóla­fé­lagið Mill­gate Holdings Limited fjár­festi 120 þúsund evrur, and­virði tæpra 18 milljóna króna, í kvik­myndinni í gegnum franska fram­leiðslu­fyrir­tækið Slot Machine SARL, sem er í eigu dansk-franska kvik­mynda­fram­leiðandans Marienna Slot. Mill­gate Holdings Limited er hins vegar skatta­skjóls­fé­lag í eigu annars kvik­mynda­fram­leiðanda, Úkraínu­mannsins Serhi­y Lavrenyuk.

Engar vís­bendingar eru um að lög hafi verið brotin við fjár­mögnun Kona fer í stríð og segir Bene­dikt Er­lings­son að honum hafi ekki verið kunnugt um að Lavrenyuk notist við aflands­fé­lög við fjár­mögnun þeirra verk­efna sem hann styður.

Marianne Slot full­yrðir í sam­tali við Stundina að aldrei hafi neitt orðið af fjár­festingu Mill­gate Holdings heldur hafi úkraínskt fram­leiðslu­fyrir­tæki Lavrenyuk, Solar Media En­terta­in­ment, fengið fjár­mögnun úr þar­lendum kvik­mynda­sjóði fyrir myndina. Gögnin úr Pan­dóru­skjölunum sýna aftur á móti hvernig afland­sauður úr gríðar­stóru sígarettu­veldis Lavrenyuk í Úkraínu hefur flætt inn í kvik­mynda­gerð í Evrópu og segir sögu af því hvernig skatta­skjóls­fé er nýtt.

Jón Ólafsson, stofnandi Icelandic Glacial, árið 2009.
Fréttablaðið/Arnþór Birkisson

Eignar­hald Icelandic Gla­cial í gegnum Tor­tóla­fé­lag

Eignar­haldið á vatns­verk­smiðju Jóns Ólafs­sonar í Ölfusi, Icelandic Gla­cial, er í gegnum Tor­tóla­fé­lag sem sonur hans, Frið­rik Ólafs­son, er skráður fyrir. Fé­lagið, Barak Invest­ment Ltd, var stofnað árið 2011 en Jón og þrjú börn hans, Kristján, Katrín og Frið­rik, áttu um tíma öll hluta­bréf í fé­laginu. Árið 2016 eignaðist Frið­rik svo öll bréfin í því, sam­kvæmt undir­rituðum gögnum sem er að finna í Pan­dóru­skjölunum.

Fé­lagið á 39 prósenta hlut í vatns­verk­smiðjunni í Ölfusi sem Jón Ólafs­son hefur verið kenndur við síðast­liðinn ára­tug. Pan­dóru­skjölin sýna um­tals­verð um­svif Jóns Ólafs­sonar og fjöl­skyldu við skatta­skjólið Tor­tóla. Sam­kvæmt Stundinni hafa slík tengsl Jóns Ólafs­sonar hafa marg­oft áður komið fram í fjöl­miðlum og hefur hann svarað fyrir þau opin­ber­lega.

Ármann Þorvaldsson, aðstoðarforstjóri Kviku banka.
Mynd/Aðsend

FME sektaði Kviku vegna hags­muna­á­rekstra að­stoðar­for­stjóra

Í um­fjöllun Stundarinnar er einnig greint frá því að Ár­mann Þor­valds­son, að­stoðar­for­stjóri Kviku banka, hafi átt alla­vega tvö aflands­fé­lög í skatta­skjólum. Annað þeirra heitir Addis Partners S.A. og stofnað á Tor­tólu 2012, átti Ár­mann það einn. Hitt heitir Waltina Assets og er í Panama, Ár­mann eignaðist það 2015 en fleiri hlut­hafar eru að því.

Ár­mann er einna þekktastur fyrir að vera fyrr­verandi for­stjóri Kaup­þing Sin­ger og Fri­ed­land­er í London á árunum fyrir hrun. Hann segist hafa stofnað bæði fé­lögin í kringum 2010 en segist ekki hafa átt neina hluti í þeim þegar hann hóf störf hjá Kviku:

„Þessi fé­lög sem þú nefnir voru stofnuð um og eftir 2010 þegar ég var bú­settur í Bret­landi og vann einkum í ráð­gjafar­verk­efnum og eigin fjár­festingum. Af þessum fé­lögum hef ég greitt alla skatta og gjöld sem mér hefur borið að gera, hvort sem er á Bret­landi eða Ís­landi. Ég átti engan hlut í þessum fé­lögum (né öðrum „aflands­fé­lögum“) þegar ég hóf störf hjá Kviku banka,“ segir Ár­mann í svari við fyrir­spurn Stundarinnar.

Þá kemur fram að Fjár­mála­eftir­litið sektaði Kviku um 18 milljónir króna vegna brota gegn á­kvæðum laga um verð­bréfa­við­skipti vegna sölu og markaðs­setningar bankans á fjár­festingar­kosti fyrir­tækisins Ortus Secured Finance, sem einnig kemur fram í Pan­dóru­skjölunum. Í úr­skurði FME kemur fram að bankinn hafi mögu­lega brotið gegn lögum um verð­bréfa­við­skipti „með því að hafa ekki fram­kvæmt og skjal­fest greiningu á hags­muna­á­rekstrum með full­nægjandi hætti“.

Fjárfestirinn Magnús Ármann árið 2007.
Fréttablaðið/Heiða

Flutti fé­lögin til Lúxem­borgar eftir Pana­ma­skjölin

Nafn ís­lenska fjár­festisins Magnúsar Ár­manns er einnig að finna í Pan­dóru­skjölunum. Magnús, sem er einn af helstu eig­endum fjár­festingar­fé­lagsins Stoða, flutti eignar­halds­fé­lag sitt frá skatta­skjólinu Panama til Lúxem­borgar árið 2016. Fé­lag Magnúsar í Panama, Mex­bor­ough Holdings S.A., hafði þá breytt um nafn og orðið Clover Capi­tal S.A.

Flutningurinn átti sér stað eftir að greint hafði verið frá stór­felldum við­skiptum Magnúsar og við­skipta­fé­laga hans, Sigurðar Bolla­sonar, í skatta­skjólum í Pana­ma­skjölunum sumarið 2016.

Við­skipti Magnúsar og Sigurðar eru sögð svo um­fangs­mikil að einungis feðgarnir Björg­ólfur Thor Björg­ólfs­son og Björg­ólfur Guð­munds­son voru tengdir fleiri fé­lögum í Pana­ma­skjölunum.