Ísland hefur nú tryggt sér bóluefni langt umfram það sem nauðsynlegt er til að tryggja hjarðónæmi.

Margrét Erlendsdóttir, upplýsingafulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, segir að Íslandi hafi líkt og aðrar Evrópuþjóðir samið á grundvelli samnings sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gerði við sex framleiðendur. Þetta hafi verið gert til að hámarka líkurnar að hægt væri að tryggja að minnsta kosti eitt bóluefni.

„Þá gerist þetta, að þjóðirnar eru búnar að tryggja meira efni en þær þurfa,“ segir Margrét. Heilbrigðisráðuneytið tilkynnti í kvöld að búið væri að tryggja skammta fyrir 125 þúsund manns frá framleiðandanum Pfizer.

Heilbrigðisráðuneytið segir enga þörf að halda bóluefni umfram það sem nauðsynlegt er. Alls hefur Ísland tryggt sér skammta fyrir 475 þúsund manns frá Pfizer, AstraZeneca, Johnson & Johnson. Þar að auki mun Ísland fá skammta frá Moderna og er verið að undirbúa samninga við Sanofi og CureVa.

Um 290 þúsund fullorðnir einstaklingar geta fengið bóluefni, þ.e. einstaklingar 16 ára og eldri. Aldursforsetinn til að fá bóluefni er 107 ára.

Til að tryggja hjarðónæmi þarf að bólusetja 60 til 70 prósent þjóðarinnar. Aðspurð hvað verði um afgangs bóluefnið segir Margrét:

„Því verður sennilega komið áfram til annarra þjóða, hvar sem er í heiminum. Það er auðvitað allra þjóðahagur að allir geti bólusett sína þegna.“

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit frá Stjórnarráðinu.