Ísland hefur risið hratt upp lista Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC) yfir þau ríki sem eru með flest smit á hverja 100 þúsund íbúa í kjölfar fjölgunar innlendra smita.

Er nú svo komið að Svíþjóð er eina ríkið á Norðurlöndunum sem er með hlutfallslega fleiri smit en Ísland.

Miðar ECDC þar við fjölda nýrra smita á hverja 100 þúsund íbúa sem greinst hafa á síðustu 14 dögum, einnig kallað nýgengi.

Sé stuðst við tölur frá því í gær er nýgengi innanlandssmita hér á landi 15,4 en til samanburðar er sú tala 30,7 í Svíþjóð, 10,6 í Danmörku, 3,6 í Noregi og 2,3 í Finnlandi samkvæmt samantekt ECDC. Mbl.is greindi fyrst frá.

Hérlendis hefur verið greint frá 48 innanlandssmitum undanfarna viku og hefur nýgengi á þeim tíma farið úr 3,3 upp í 15,4.

Ekki liggur fyrir hvernig tölur dagsins eiga eftir að hafa áhrif á stöðu Íslands á lista ECDC.

Ofar á þeim lista má meðal annars finna Spán (60,2), Frakkland (19,8), Belgíu (44,4), Pólland (17,4) og Rúmeníu (79,4).

Þess ber að geta að mismikil sýnataka getur getur skekkt samanburð milli ríkja.

Ísland gæti talist áhættusvæði

Fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi á laugardag að ef miðað væri við þá skilgreiningu sem stuðst hafi verið við hérlendis gæti Ísland nú talist sem áhættusvæði.

Hafa íslensk heilbrigðisyfirvöld miðað við að ríki þar sem nýgengi smita væri yfir 10 gæti talist áhættusvæði. Á laugardag var nýgengi innanlandssmita á Íslandi 12,0 og var komið upp í 15,4 í gær.

„Í raun og veru erum við komin af lágáhættusvæði ef við viljum skilgreina okkur þannig,“ sagði Þórólfur á fundinum.