Björk Eiðsdóttir og Birna Dröfn Jónasdóttir
Laugardagur 20. júní 2020
07.00 GMT

Frétta­blaðið fékk álit nokkurra ein­stak­linga um mark­verðustu á­hrif jafn­réttis­bar­áttunnar og því hverju enn má breyta, í til­efni kven­réttinda­dagsins sem var í gær, 19. júní, þegar 105 ár voru liðin frá því að konur 40 ára og eldri hlutu kosninga­rétt til Al­þingis.

Melkorka Magnúsdóttir.
Mynd/Aðsend

Hvergi fullkomið jafnvægi

Melkorka Magnúsdóttir, 23 ára.

Nemandi í Mannfræði við HÍ

Ætli kosningarréttur kvenna sé ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar spurt er um mikilvægasta ávinning kvenréttindabaráttunnar? En það er merkilegt hvað það er enn erfitt fyrir konur í mörgum löndum að kjósa og hversu stutt síðan ákveðin lönd gáfu konum kosningarétt.

Úr hverju þarf enn að bæta?

Öll samfélög geta gert betur þegar kemur að jafnrétti kynjanna þar sem það er líklega ekkert samfélag til, þar sem ríkir fullkomið jafnvægi á milli kynja. Mér finnst konur á Íslandi mega vera meira áberandi i valdastöðum sem og að þær séu teknar alvarlega og á þær hlustað.

Mér finnst mjög mikilvægt að tekið verði á því hvernig ungar konur og stelpur eru þvingaðar í hjónabönd með eldri mönnum í ýmsum löndum en það er samt sem áður bara brota brot af því sem er mikilvægt að bæta og laga.

Magnús Geir Þórðarson.
Fréttablaðið/Stefán

Sigurinn enn ekki unninn

Magnús Geir Þórðarson 46 ára.

Þjóðleikhússtjóri

Kosningaréttur kvenna markaði auðvitað mikilvæg tímamót á sínum tíma hér á landi en svo blasir kvennafrídagurinn við á áttunda áratugnum. Kjör Vigdísar og framganga hennar hafði ómetanleg mótandi áhrif á mína kynslóð og auðvitað höfðu breytingar á lögum um fæðingarorlof mikil áhrif og síðar lög um jafnlaunavottun. - Allt afar jákvæð framfaraskref.

Úr hverju þarf enn að bæta?

Í dag finnst mér einna brýnast að við brúum bilið á milli fæðingarorlofs og dagvistar barna. Það er ómögulegt að fjöldi foreldra ungra barna hafi ekki dagvistarúrræði þegar fæðingarorlofi sleppir.

Svo þurfum við að sjálfsögðu að halda áfram að huga að jafnrétti og jafnræði á öllum póstum. Þó margt hafi áunnist þá er sigurinn enn ekki unninn. Við þurfum að huga að því hvaða raddir heyrast í samfélaginu, hvaða staðalímyndum við vörpum fram og gæta þess að setja okkur sjálf og aðra ekki í hefðbundin kynhlutverk. Og svo snúast jafnréttismál í dag ekki bara um jafnrétti kynjanna – við þurfum að horfa á jafnrétti á víðum grundvelli.

Andrea Róberts.
Mynd/FKA

Ekki bara eitthvað kvennamál

Andrea Róbertsdóttir 45 ára.

Framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu

Hægt er að nefna marga stóra pensla þegar spurt er um það mikilvægasta sem áunnist hefur. Eitt það allra mikilvægasta í seinni tíð er þegar farið var að tala um jafnréttismál sem samfélagsmál, mál okkar allra, stærra og meira en bara eitthvað kvennamál. Ef við skoðum atvinnulífið í dag þá eru stjórnendur í meira mæli að spyrna í botninn ef þeir fá ævintýralega slappar niðurstöður er kemur að kynjajafnrétti og víða er að finna einlægan vilja til gera betur.

Við sjáum öll að fjölbreytileikinn er mikilvægur í sjálfbærum heimi og þurfum því að hætta að sóa man-auði. Þeir sem átta sig á að jafnrétti er ákvörðun sjá að það er háþrýstidælan sem við þurftum allan tímann. Þá getum við hætt að stóla á einhvern dúllu-dropa til að hola steininn.

Úr hverju þarf enn að bæta?

Við þurfum að vera vakandi fyrir bakslagi og stöðnun, varða velsæld fyrir okkur öll og draga sérfræðinga á sviði jafnréttismála í miklu meira mæli að borðinu - þetta eru fræði og það sýndi sig í COVID að það er mikilvægt að hafa vísindin í stórum skömmtum með brjóstvitinu. Það er engin hjáleið og við þurfum að gera öll smáatriði sýnileg sem bera misréttið uppi.

Það örlar fyrir samstöðu um að setja feðraveldið í líknandi meðferð öllum til hagsbóta og allt er morandi í tækifærum til að bæta heiminn með samtali og fræðslu. Svo þurfa konur að fara fyrir fé, það er ljóst. Á hverjum degi hugsa ég til formæðra minna sem börðust fyrir okkur því jafnréttið hefur sannarlega ekki komið af sjálfu sér.

Stella Briem.

Konur eiga að vera öruggar heima

Stella Briem 22 ára.

Skipuleggjandi Druslugöngunnar

Að mínu mati er það mikilvægasta sem komið hefur fyrir kvenréttindi á Íslandi kvennafrídagurinn 1975. Ég tel þann dag hafa haft meiri áhrif í íslenska kvenréttindabáráttu en einhver af þeim konum sem voru þar sameinaðar hefðu geta ímyndað sér.

Verandi eitt af skipuleggjendum druslugöngunnar og hafa verið partur af nýrri femíniskum hreyfingum eins og Free The Nipple, finnst mér augljóst að kvennafrí hafi sýnt íslenskum konum hve mikill styrkur býr í samstöðu. Þegar íslenskar konum sameinast til þess að fá einhverju breytt, eins og sagan hefur sýnt okkur, erum við óstöðvandi.

Úr hverju þarf enn að bæta?

Mér finnst eins og við þurfum meiri umræðu og betri úrræði fyrir þolendur heimilisofbeldis og það þarf meiri fræðslu, þá sérstaklega beinda að ungu fólki, um „rauðu ljósin” í ofbeldissamböndum, sjá átak Bjarkahlíðar #rauðuljósin. Núna gengur yfir heimsfaraldur og við erum að sjá það enn skýrar hve algengt og alvarlegt samfélagslegt vandamál heimilisofbeldi er. Konur eiga að vera öruggar á sínu heimili og við þurfum að standa okkur betur sem samfélag að tryggja þetta öryggi.

Bergrún Íris Sævarsdóttir.
Fréttablaðið/Valli

Barna afþreying endurspegli fjölbreytileika

Bergrún Íris Sævarsdóttir 35 ára

Rithöfundur

Það er erfitt að velja eitthvað eitt sem það mikilvægasta sem áunnist hefur en árið 1275 var bannað að gifta konur gegn vilja þeirra. Ég get ekki ímyndað mér nokkuð verra en að einhver sé neyddur í hjónaband en þó viðgengst það enn í mörgum löndum. Yfirráð konunnar yfir eigin líkama er stórt og mikilvægt málefni sem hefur smámjakast í gegnum tíðina með tilkomu p-pillunnar, löglegu þungunarrofi og svo framvegis.

Úr hverju þarf enn að bæta?

Mig dreymir um heim þar sem öll kyn fá verðskuldað pláss í barnamenningu. Það er ekki bara mikilvægt kvenréttindamál heldur skiptir það öll börn okkar máli, sama hvernig þau skilgreina sig. Best er ef börn eiga fyrirmyndir af öllum kynjum í hverri þeirri afþreyingu sem þau kjósa sér. Hvernig fullorðið fólk skrifar um kynin í bókum, bíómyndum og tölvuleikjum skiptir gríðarlegu máli. Við erum öll alls konar og afþreying fyrir börn þarf að endurspegla það.

Ísland getur gert enn betur í málefnum transfólks. Ofur einfaldir hlutir eins og salerni og baðaðstaða fyrir alla á sundstöðum er nokkuð sem væri auðvelt að laga en myndi um leið gera samfélagið okkar mun manneskjulegra.

Halldór Benjamín Þorbergsson.
Fréttablaðið/GVA

Jafnréttismál eru efnahagsmál

Halldór Benjamín Þorbergsson, 41 árs.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Það að jafnréttismál skulu vera í forgrunni í allri samfélagsþróun og þróun vinnumarkaðarins er auðvitað ákveðið afrek fyrir sig. Betur má ef duga skal en orð og vilji eru til alls fyrst. Dæmi um þá sigra sem unnist hafa og ég vil sérstaklega nefna er aðgengi foreldra að leikskólaplássi sem stuðlar að jafnari stöðu á vinnumarkaði.

Kærunefnd jafnréttismála, sem var sett á laggirnar og með henni lögfest að ef tveir umsækjendur um starf væru jafnhæfir þyrfti að ráða þann sem væri af því kyni sem hallaði á. Síðast en ekki síst sú lagalega skylda að konum og körlum skulu greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Þetta eru dæmi um hvernig samfélagið getur hraðað þessari mikilvægu vegferð með því að skapa umgjörð.

Úr hverju þarf enn að bæta?

Ég hef beitt mér fyrir því að brúa umönnunarbilið frá því að fæðingarorlofi foreldra lýkur og þar til börn fá pláss á leikskóla. Ég trúi því að það sé eitt stærsta jafnréttismál nútímans enda sýna rannsóknir að barneignir hafa jákvæð áhrif á laun karla en neikvæð á laun kvenna. Lagfæra þarf þessa skekkju. Mikilvægt er að stjórnvöld búi íbúum sínum þannig aðstæður að foreldrar hafi raunverulegt val um það hvernig fjölskylduábyrgð og þátttöku foreldra á vinnumarkaði er háttað.

Jafnréttismál eru efnahagsmál. Fyrirtæki sem ætla að ná árangri verða að setja þau á dagskrá. Kynslóðir sem eru að vaxa úr grasi munu líta þessi mál öðrum augum og gera skýrar kröfur um jafnrétti. Þetta segi ég ekki aðeins sem forsvarsmaður atvinnulífsins heldur sem faðir sem vill jöfn tækifæri fyrir dóttur mína og syni.

Athugasemdir