Ísland hefur getuna til að sjá 40 milljón manns fyrir próteini samkvæmt nýrri rannsókn erlendra og íslenskra vísindamanna. Lífmassa má rækta á öruggan og vistvænan hátt en áskorunin er að fá neytendur til að velja fæðuna.
„Ég trúi því að við gætum orðið matarkista Evrópu ef við veljum það,“ segir Arnar Þór Skúlason, matvælafræðingur hjá Háskóla Íslands, og annar tveggja íslenskra vísindamanna sem komu að rannsókninni. Hinn er Margrét Geirsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, en sá sem leiddi rannsóknina er Asaf Tzachor hjá Reichman-háskólanum í Tel Avív í Ísrael.
Lífmassi getur verið af ýmsum toga en þessi rannsókn fjallaði um framleiðslu spírúlínu, blágrænnar bakteríu, sem Arnar segir mjög holla og vera stundum titlaða ofurfæða. Orkunotkun er takmarkandi þáttur í framleiðslunni og þess vegna var Ísland vettvangurinn. Tölurnar úr rannsókninni eru ekki úr lausu lofti gripnar heldur rauntölur frá bæði Orkustofnun og VAXA Technologies sem framleiðir spírúlínu í verksmiðju við hlið Hellisheiðarvirkjunar.
Samkvæmt rannsókninni gæti Ísland aflað nógu mikils próteins fyrir 40 milljón manns og jafnað út 700 milljónir tonna af kolefnisútblæstri. Arnar segir þessi kerfi nota miklu minna vatn en hefðbundna ræktun og miklu minna landsvæði. Það sé þó kostur við Ísland að hér er nægt vatn og land, fyrir utan hina sjálfbæru orku.
„Við eigum mikið land sem ekki er hægt að rækta. Við getum alveg eins verið þar með lokaðar verksmiðjur,“ segir hann.
Fæðuöryggi er stórt mál í umræðunni þessi misserin, einkum í ljósi loftslagsbreytinga. Spurður um framtíðina og hvernig jarðarbúar ætli að fæða sig segir Arnar að lífmassi sé ekki eina lausnin, en vissulega hluti af henni. „Evrópa er ekki sjálfbær um prótein,“ segir Arnar og bendir á að þó að Evrópa geti framleitt kjöt þá sé fóðrið fyrir skepnurnar innflutt, aðallega í formi sojabauna.
„Boltinn er byrjaður að rúlla,“ segir Arnar. „Stærsta verkefnið er hugarfar neytenda. Neytendur verða að vera spenntir og sækja í svona fæðu. Ef það gerist eru meiri líkur á fjárfestingum í framleiðslunni.“
Orkufyrirtæki eru líka líklegri til að vilja fara í samstarf við fyrirtæki sem eru í hröðum vexti. Hér á Íslandi er hægt að framleiða hágæða lífmassa innanhúss með mikilli stjórnun. Erlendis er framleiðslan oft utandyra en þá er alltaf hætta á að aðrir þörungar komist í ræktunina sem geta myndað eiturefni.