Sigurður Ingi Jóhannesson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir það sjást bersýnilega núna að óheft aðgengi að orku sé nauðsynlegt fyrir sjálfstæði þjóða.

Hann telur líklegt að Ísland geti öðlast orkusjálfstæði á næsta áratugi, „og þetta gæti gerst hraðar en við höldum í dag.“

„Við sjáum Evrópu í þeirri stöðu sem hún er,“ segir Sigurður Ingi í samtali við Fréttablaðið en hann hélt stefnuræðu á Flokksþingi Framsóknarflokksins sem fer fram yfir helgina í hádeginu í dag.

Sigurður Ingi sagði í ræðu sinni að nauðsynlegt væri að virkja meira til að gera Ísland að sjálfstæðu ríki í orkumálum.

Gæti gerst næsta áratuginn

Sigurður Ingi segir í samtali við Fréttablaðið að tækifærin séu fyrir hendi á Íslandi í orkumálum, það sé í rammaáætlun þrjú sem liggur nú fyrir á Alþingi en hefur ekki verið afgreidd.

Aðspurður hvenær hann sjái fyrir sér að Ísland verði sjálfstætt í orkumálum segir Sigurður Ingi að það verði um leið og landið nær kolefnishlutleysi.

„Það er auðvitað við sem ráðum ekki öllu í þeirri deild – tæknin þarf að framleiða rafeldsneyti á skip, flugvélar og þungavinnuvélar. En þetta gæti gerst kannski á næsta áratugi og þetta gæti gerst hraðar en við höldum í dag,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að það sé gríðarleg tækni og nýsköpun í gangi í þessum geira.

Sigurður Ingi sér fyrir sér að Ísland taki mjög stór skref í átt að orkusjálfstæði næsta áratuginn.

Eignarhald á fiskeldi

Sigurður Ingi kallaði einnig eftir gjaldtöku af ofurhagnaði í sjávarútvegi sem og innlendu eignarhaldi á fiskeldi í ræðu sinni í hádeginu í dag. Aðspurður hvort hann sjái það gerast svaraði Sigurður Ingi játandi, það sé nauðsynlegt.

„Miðað við skýrsluna sem birt var í vor um áframhaldandi verulega aukna arðsemi í sjávarútvegi á næstu tíu árum, þá sé mikilvægt að ná sátt um aukinn hlut eiganda auðlindarinnar, sem er þjóðin, í þeirri aukningu,“ segir Sigurður Ingi.

„Við erum að setja, ríkisstjórnin og matvælaráðherrann, af stað núna hópa í vinnu í kringum stefnumótun bæði varðandi matvælastefnur sem horfa sérstaklega á sjávarútveg þar á meðal þennan þátt, horfa á fiskeldið, eignarhaldið og síðan á landbúnaðinn sem við þurfum líka að sækja fram í.“

Sem fyrr segir fer nú um helgina fram 36. flokksþing Framsóknarflokksins og segir Sigurður Ingi gríðarlega góða stemningu.

„Menn er búnir að bíða lengi eftir því að geta og fá að koma saman. Þó svo að Covid sé enn að stríða og einhverjir sitji heima veikir þá er mikil þátttaka og gríðarlega góð stemning.“