Ætla mætti að nær allt hafi breyst á hálfri öld, sérstaklega eftir allar þær tækni og samfélagsbyltingar sem orðið hafa á liðnum áratugum. Margt er þó furðulega líkt með Íslandi árið 2023 og 1973.
Hertu púið geysilega
Sígarettureykingar eru siður, eða ósiður, sem Íslendingar stunduðu af kappi á árum áður. Vitneskja um skaðsemi reykinga var orðin kunn árið 1973 og árið áður höfðu tóbaksauglýsingar verið bannaðar. Einnig voru komnar viðvaranir á pakkana um hversu óhollt það væri að nota vöruna. Það var þó sem landinn firrtist við þessu og jukust reykingar gríðarlega þetta ár. Þann 4. janúar greindi Áfengis og tóbaksverslun ríkisins frá því að innflutningurinn á tóbaki hefði aukist um 70 prósent árið 1972 miðað við árið á undan. „Menn púa eins og þeir geta,“ sagði í frétt Vísis.

Dómstóll götunnar
Umræðan um dómstól götunnar varð ekki til með Harvey Weinstein málinu og metoo byltingunni. Nei, hún var vel víð líði á Íslandi árið 1973. 5. janúar það ár fjallaði Morgunblaðið um hnífsstungumál í þar sem 25 ára gamall sjómaður frá Akureyri stakk 19 ára stúlku í Breiðholti í misheppnaðri ránstilraun og bar við vímuefnaneyslu. Einum lesanda Vísis, líka frá Akureyri, fannst það óforskammað af Morgunblaðinu að „dæma manninn löngu áður en dómstóll hefur fjallað um mál hans.“ Lögreglunni fannst blaðið einnig ganga of langt og „taka sér dómsvald í hendur.“

Þrettándaólætin
Nú á dögum er þrettándinn stundum kallaður ýludagur því að ýlur eru það eina sem fólk á eftir úr flugeldapökkunum sínum og notar daginn til að fluðra þeim upp. Áður fyrr var hins vegar mikið fútt í þrettándanum og unglingar misstu gjarnan stjórn á sér. Lögreglan í Hafnarfirði var með viðbragð á þrettándanum árið 1973 enda höfðu skrílslæti eftir brennuna árið áður farið úr böndunum. Ákveðið var að hafa engar brennur og áskorun var dreift á öll heimili þar sem foreldrar voru hvattir til þess að halda börnum sínum frá miðbænum þar sem ólætin hafa venjulega átt sér stað. Þetta ár voru það aðallega unglingar úr Reykjavík sem komnir voru í Hafnarfjörð til að leita að vandræðum. Við getum þakkað TikTok og Netflix fyrir dauða þrettándaólátanna.

Í kjólinn eftir jólin
Eftir óhóflegt át af feitu og söltuðu kjöti, sykruðum kökum og öli, strengja Íslendingar heit um bætt líferni og halda í líkamsræktarstöðvar. Það er gömul saga og ný. Fréttakonan Edda Andrésdóttir heimsótti Heilsuræktina í Glæsibæ þar sem fóru fram harðar megrunaræfingar, með öndun og slökun í bland og austrænu yoga. Bauðst fólki að taka svokallaðan eplakúr, það er borða ekkert nema epli í þrjá daga og eina matskeið af ólífuolíu við háttatíma. Það kom hins vegar fyrir að fólk spryngi á limminu og gæfist upp á megruninni. Harðsperrur gátu reynst fólki erfiðar eftir fyrstu æfingarnar. Svo er enn.
Krúnuraka afbrotaunglinga
Sú hugmynd var uppi að ein leið til þess að hegna afbrotaunglingum fyrir smáglæpi og vímuefnaneyslu væri að snoða hárið af þeim. Því fátt væri þeim nú kærara en þykkur makki. Sumir tóku vel í þetta en aðrir voru nútímalegri í hugsun og töldu faglega aðstoð betri lausn.



Sameina höfuðborgarsvæðið
Hugmyndin um sameiningu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hefur lengi verið uppi og árið 1973 taldi almenningur að hún væri tímaspursmál. Það eina sem hefur hins vegar þokast í þessa átt er að Álftanes varð gjaldþrota og Garðabær keypti þrotabúið. Sveitarfélögum á landsbyggðinni hefur hins vegar fækkað úr rúmlega 200 í 58.



Sóldýrkendur í skammdeginu
Sennilega eru hvergi jafn margir sóldýrkendur á byggðu bóli og hér á Fróni og því ekki skrýtið að þjóðin haldi sín jól á eyjunni Tenerife undan ströndum Afríku. Skammdegið fer vel í fáa og ruglar lífsklukkunni. Eins ómerkilegt og íslenska sumrið er nú oftast þá er það alltaf vel þegið þegar það loksins kemur.


