Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir að næsta sending af bólu­efni Pfizer og BioN­Tech muni berast í næstu viku. Í sam­tali við Vísi segir Þór­ólfur að breyting Pfizer um af­hendingu bólu­efnis til Evrópu muni ekki breyta því.

Pfizer greindi frá því fyrr í dag að færri skammtar kæmu til með að berast til Evrópu­þjóða á næstu misserum en sam­kvæmt til­kynningu lyfja­fyrir­tækisins er verið að endur­skipu­leggja af­hendingar­á­ætlun. Talið er að sendingar verði aftur komnar á fullt seint í febrúar eða byrjun mars.

Óljóst hvað gerist eftir næstu viku

Í sam­tali við Vísi segir Þór­ólfur að það sé ekki ljóst hvaða á­hrif breytingarnar muni hafa hér á landi en næsta sending yrði þó venju­leg. „Eftir það er ekki alveg ljóst þannig að við eigum eftir að fá betri fregnir af því,“ sagði Þór­ólfur.

„Þeir eru að breyta ferlunum en síðan ætla þeir að vinna það upp aftur. Jafn­vel í mars munu þeir geta bætt fyrir þetta tapaða magn sem þeir á­ætla fram að því,“ sagði Þór­ólfur enn fremur og býst við að fyrir lok mars verði Ís­land búið að fá 50 þúsund skammta, sam­kvæmt á­ætlun.

Í heildina hefur Ísland tryggt sér 250 þúsund skammta af bóluefni Pfizer en 10 þúsund skammtar hafa nú komið til landsins.