Eftirlitsstofnun EES- samningsins (ESA) veitir Íslandi lokafrest til að lagfæra löggjöf sem sögð er stangast á við Evróputilskipun um umhverfismat.

Fram kom í Fréttablaðinu 17. apríl 2020 að ESA hefði komist að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu að beitt hefði verið ólögmætum ákvæðum í íslenskum lögum og reglugerð er fiskeldisfyrirtækin Fjarðalax og Artic Sea Farm fengu starfsleyfi þótt úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segði starfsemina í bága við lög.

Í nýju áliti segir ESA að Ísland hafi vanrækt að lagfæra löggjöfina og gert brotið alvarlegra og verra. Ráðherrar hafi á ólögmætan hátt fengið vald til að komast afturvirkt fram hjá reglum. Fyrirkomulagið myndi tryggja að umhverfismat yrði undantekning en ekki regla. Fær Ísland þriggja mánaða frest til að bæta úr göllunum áður en ESA hefur undirbúning að málarekstri.

„Niðurstaða ESA staðfestir að lagabreytingarnar grafa undan allri löggjöf og ferlum tengdum umhverfismati,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.

„Niðurstaðan staðfestir einnig að síðasta ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna braut gegn tveimur af mikilvægustu þáttum umhverfislöggjafarinnar: aðkomu almennings að ákvörðunum í umhverfisverndarmálum og skyldu um umhverfismat vegna framkvæmda sem varða umhverfið,“ segir Auður. Ísland verði að draga lagabreytingarnar frá 2018 til baka.

Auður gagnrýnir sérstaklega framgöngu forvera síns í stóli framkvæmdastjóra Landverndar, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, í hlutverki umhverfisráðherra.

„Jafnframt staðfestir niðurstaða ESA að umhverfisráðherra VG tók þátt í brotunum og lét hjá líða að leiðrétta þau þrátt fyrir að vera einn helsti sérfræðingur landsins þegar kemur að mikilvægi þess að almenningur taki þátt í ákvörðunum opinberra aðila sem varða umhverfið. ESA átelur hann sérstaklega í bréfi sínu vegna þessa,“ segir framkvæmdastjóri Landverndar.