Ís­land hefur næst­hæsta bólu­setningar­hlut­fall Evrópu. Hér eru 85,4 prósent allra yfir 12 ára aldri full­bólu­sett gegn Co­vid-19 og að­eins Malt­verjar með hærra hlut­fall. Í næstu sætum koma Danir, Belgar og Spán­verjar með yfir 80 prósent en tvær síðar­nefndu þjóðirnar lentu mjög illa í far­aldrinum.

Mikið er rætt um að fá­tækari ríki hafi ekki haft jafn góðan að­gang að bólu­efnum og að CO­VAX-verk­efnið hafi mis­tekist. Sums staðar hafa bólu­setningar hins vegar nær stöðvast vegna skorts á upp­hand­leggjum.

Hlut­fallið í Þýska­landi er 68,9 prósent, langt frá 85 prósenta markinu sem sér­fræðingar telja að sé nægjan­legt til þess að landið komist klakk­laust í gegnum veturinn þegar búist er við því að sýkingum fjölgi.

Sam­kvæmt sótt­varna­stofnun Þýska­lands eru á bilinu 5 til 10 prósent harðir and­stæðingar bólu­setninga en hlut­fall óbólu­settra er hærra. Stór hluti fólks er tví­stígandi og bíður með bólu­setningu, sem er þó mjög auð­velt að fá. Hefur mörgum bólu­setningar­stöðvum verið lokað í landinu vegna á­huga­leysis.

Frakk­land er á sama stað, með 69 prósenta hlut­fall. Þar var and­staðan fyrir­séðari en í Þýska­landi en stór hluti Frakka hefur lengi verið á móti bólu­setningum yfir höfuð.

Hlut­fallið í Bret­landi, á Ítalíu og í Noregi er yfir 70 prósent og mest­öll Evrópa er yfir 60 prósenta markinu. Á Norður­löndunum er á­standið á­berandi verst í Finn­landi, 60,8 prósent. Á­standið er þó verra í Austur Evrópu þar sem bólu­setningar eru víða vel undir 50 prósentum. Rúmenar, þar sem hlut­fallið er 30 prósent, hafa reynt að selja sína skammta og gefið hluta þeirra til Víet­nam.