Transparency International Ísland og Institute for Public Policy Research í Namibíu sendu nýverið frá sér yfirlýsingu þar sem þrjú ár eru liðinn frá því að Samherjamálið svo kallaða var afhjúpað. Framkvæmdastjóri Íslandsdeildar segir að um risavaxið alþjóðlegt spillingamál sé að ræða og að Ísland sé með allt niðrum sig í baráttunni gegn spillingu.
„Namibíumál Samherja er stærsta einstaka spillingarmál í Namibíu og á Íslandi. Verðmæti grunsamlegra viðskipta sem Fjármálaleyniþjónusta Namibíu tengja við starfsemi Samherja eru 650 milljónir Bandaríkjadala (95 milljarðar króna). Áhrif vegna málsins á sjávarútveg Namibíu eru skelfileg. Sama má segja um sjávarþorp og svæði sem rænd voru fiskveiðikvóta vegna aðferða Samherja,“ segir í tilkynningunni.
Namibískur efnahagur hefur ekki verið ósnertur af starfsemi Samherja, þar sem fyrirtækið lagði sig fram við að taka sem mest út úr hagkerfi Namibíu og skilja lítið sem ekkert eftir. „Talið er að þúsundir sjómanna Í Namibíu hafi misst vinnuna vegna þess að starfsemi ýtti namibískum fyrirtækjum sem reyndu að spila eftir úthlutunarreglum úr kvótaröðinni. Framganga Samherja mun hafa neikvæð áhrif á lífsgæði komandi kynslóða Namibíu,“ segir í tilkynningunni.
Í tilkynningunni er það gagnrýnt að enginn hafi verið ákærður hér á landi vegna málsins. Þess í stað liggja íslenskir blaðamenn sem segja frá Samherja undir lögreglurannsókn. Grafið sé undan frelsi fjölmiðla, tjáningarfrelsi og baráttu gegn spillingu. „Viðbrögð íslenskra yfirvalda hafa verið kölluð „nánast vandræðaleg“ af Drago Kos, formanni vinnuhóps OECD um mútur í alþjóðlegum viðskiptum.“
Risavaxið alþjóðlegt spillingamál
Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóru Transparency International Iceland segir að ekki sé um eitthvað smámál þar sem duglegir íslenskir drengir sem eiga lítið „duggdugg“ fyrirtæki villtust til Afríku og var sópað upp í hvirfilbyl spillingar af vondum Namibíumönnum.
„Ég tek þetta fram vegna ummæla Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, eftir að almenningur var upplýstur um útflutning Íslands á spillingu til fátækari ríkja. Það er tilhneiging til að láta eins og Samherji sé fórnarlamb í málinu en það er nákvæmlega ekki neitt sem bendir til þess,“ segir Atli.
„Á hinn boginn eru upplýsingar um brotin 30.000 skjöl frá Samherja sem að auki hélt uppi 'skæruliðadeild' sem hafði það að megin markmiði að koma í veg fyrir að Jóhannes Stefánsson beri vitni í Namibíu með fram því að ofsækja blaðamenn og grafa undan þeim sem Samherji telur óvini sína,“ segir Atli
Atli segir að um sé að ræða risavaxið alþjóðlegt spillingamál þar sen grunur er um mútur, peningaþvott og stórfelld skattalagabrot í fjölda ríkja. Hann telur að Íslendingar þurfi að setja sig í spor Namibíumanna og hugsa ef dæminu væri snúið við.
„Fyrir það fyrsta þá er enginn kvóti fyrir erlend fyrirtæki á Íslandi og því væri hver einasta króna og hvert einasta þorskígildi sem sogað væri úr íslensku hagkerfi í gegnum leppa stuldur. Sama á við í Namibíu. Samherji fór til Namibíu vitandi að ekki eitt einasta kíló af kvóta væru í boði fyrir þá með því að fylgja leikreglum Namibíu. Þetta er það sem þeir kölluðu að finna Samherja „svart andlit“ og þetta er ástæða þess að peningar flæddu til stjórnmálamanna, flokka og fjölskyldu ráðamanna,“ segir Atli.
Atli segir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur verði að taka baráttuna gegn spillingu alvarlega. Hann segir að Ísland sé með allt niðrum sig þegar kemur að baráttunni gegn spillingu.
„Þegar fylgst er með framgöngu stjórnarliða ættu allir að sjá að auðvitað er það viljandi en ekki mistök. Svona vilja þau hafa þetta,“ segir Atli.
Kröfur Transparency International Ísland og IPPR:
Samherji verður að samþykkja og greiða skaðabætur ásamt því að gangast undir ferli umbóta. Í því þarf að felast
- Mat á mannréttindum og efnahagslegum áhrifum á starfsemi Samherja í Namibíu
- Fullar bætur til þeirra sem báru skaða af brotunum
- Að koma á fyrirkomulagi til að takast á við sérstök mál í byggðum heimamanna og/eða einstaklinga
Viðskiptavinir, birgjar og meðeigendur Samherja þurfa að endurskoða fyrirkomulag viðskipta við Samherja, sérstaklega með tilliti til umhverfis-, félags og stjórnunarþátta og siðferðislegar skuldbindingar í framboðskeðjunni sem og eðlilegar væntingar almennings um sömu þætti.
Íslensk stjórnvöld taki frumkvæði í sakamálarannsókn og beiti sér gegn spillingu sem framin er af íslenskum borgunum.
Yfirvöld í Namibíu geri frekari umbætur á stjórnunarháttum sínum sérstaklega með því að breyta lögum um auðlindir sjávar, sem gerði framgöngu Samherja mögulega, og dragi þá sem ábyrgð bera fyrir rétt eins fljótt og auðið er, þar með talda þá sem framselja þarf frá Íslandi án frekari tafa.
Ríkisstjórnir, þeirra á meðal í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Póllandi, Hollandi, Noregi og í Færeyjum beiti sér fyrir því að tryggja að áframhald verði ekki á brotum í efnahagskerfum þessara landa í krafti alþjóðlegra fjárfestinga Samherja eða í skjóli fjárfestinga félagsins í Namibíu.