Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir hefur tilkynnt stað og dagsetningar fyrir Cornucopiu Evróputúr sinn í haust. Björk gaf út plötuna Fossora í september, elleftu stúdíóplötuna, en Cornucopiu kallar Björk stafrænt leikhús.

Evróputúrinn hefst 1. september í Portúgal og endar 5. desember í Frakklandi. Á túrnum mun Björk koma fram í Tékklandi, Ítalíu, Spáni, Póllandi, Þýskalandi og Sviss. Í mars kemur hún hins vegar fram á sjö tónleikum í Ástralíu og Japan. Þá hefur verið tilkynnt að hún komi tvisvar fram á Coachella-hátíðinni í Kaliforníu í Bandaríkjunum í apríl, þar sem hún fer yfir þriggja áratuga efni.

Björk hefur sagst vilja setja Cornucopiu upp hér á Íslandi og það var á döfinni áður en Covid-faraldurinn skall á. Í viðtali við Morgunblaðið í september sagði hún að stefnan væri sett á 2023 en hins vegar bólar ekkert á því enn.