Samkvæmt verðlagsvísitölu fyrir neysluútgjöld heimilanna er Ísland dýrasta landið í Evrópu. Niðurstöðurnar eru á vegum Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins, og byggja á umfangsmiklum verðmælingum í 38 löndum, þar sem yfir 2.000 vöru- og þjónustuliðir voru kannaðir.

Það er nánast sama hvor borið er niður, Ísland kemur yfirleitt verst út. Eini flokkurinn sem Ísland kemur þokkalega út, í evrópskum samanburði, er sameiginlegur flokkur fyrir rafmagn, eldsneyti og aðra orkugjafa. Þar spilar lágt raforkuverð lykilrullu.

Húsgögn og innréttingar, heimilistæki og raftæki eru dýrust á Íslandi. Vöruflutningar eru hvergi dýrari en hér og verðlag á veitingastöðum og hótelum er hæst á Íslandi. Sömu sögu er að segja þegar verðlag á skóm og fatnaði er skoðað. Aðeins í Noregi er áfengi og tóbak dýrara en hér, en þar munar litlu. Matvara er dýrari í Sviss og Noregi en Ísland er í þriðja sæti.

Fram kemur að þegar aðeins sé horft til Evrópusambandslandanna sé verðlag á mat, óáfengjum drykkjum og skófatnaði hæst í Danmörku. Föt eru hins vegar dýrust í Svíþjóð, séu löndin utan ESB ekki talin með.

Neysluútgjöld eru lægst í austanverðri Evrópu. Verðlag er lægst í Makedóníu, Búlgaríu, Albaníu og Serbíu.