Sandra Kristín Jónasdóttir, formaður Femínistafélags Háskóla Íslands, flutti erindi á Austurvelli á mótmælum í dag sem hún sagði að það þyrfti að horfast í augu við það að „Ísland er ekki paradís fyrir konur“ þó svo að samkvæmt ýmsum stöðum og mælingum sé ávallt fjallað um Ísland sem einn besta stað fyrir konur í heiminum. 

Hún segir það ekki ástæðu til að fagna, því þó við séum skást, ástandið sé ekki neins staðar gott. Sandra sagði frá því að hún hafi verið sjálfboðaliði á heimsþingi kvenna, Women Leaders Global Forum, sem fór fram í Hörpu í liðinni viku.

„Þær hafa skarað fram í stjórnmálum, viðskiptum, hjá góðgerðarsamtökum sem og á fleiri stöðum í sínum heimalöndum. Þeim var boðið hingað til lands til þess að ræða það hvernig við getum aukið kynjajafnrétti í heiminum og komið fleiri konum í leiðtogahlutverk. Ég fékk að hlusta á ótrúlegar konur ræða saman um það hver raunveruleikinn er fyrir konur sem setja sig á framfæri. Það var ótrúlega valdeflandi en á sama tíma ógnvekjandi hlustun,“ sagði Sandra í ræðu sinni.

Hún segir það hafa verið mikil vonbrigði að heyra af samtölum þingmannanna á sama tíma og á ráðstefnunni stóð og eftir að hún hafði hlustað á konurnar tala, en það hafi „því miður“ verið í takt við umræðu vikunnar á þinginu.

„Á útopnu þá heyrum við #heforshe og stuðning við #metoo. En þegar komið er inn í nútímaútgáfu hins reykfyllta bakherbergis þá birtist annar raunveruleiki,“ sagði Sandra.

Hún segir þó að hún vilji trúa því að slíkar skoðanir séu á undanhaldi og að í dag séu mun fleiri karlmenn sem standi með konum og jafnara samfélagi. Hún kallar eftir því að karlmenn standi upp og lýsi því yfir að slíkir „bakherbergiskarlar“ tali ekki fyrir þá. Að þeir grípi inn í slíkar umræður og láti vita að þeir séu ekki sammála. 

Að lokum beindi hún orðum sínum að þingheimi og sagði að virðing „fyrir öllum þegnum landsins ætti að vera frumskilyrði fyrir því að starfa fyrir hönd þjóðarinnar á hæsta stjórnstigi hennar.“

Hún sagði að það væri ekki hægt að treysta einstaklingum sem vanvirða aðra með orðum sínum, líkt og þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins gerðu á Klaustri þann 20. nóvember.

„Þeir munu aldrei getað talað fyrir eða skilið hagsmuni þeirra sem þeir níða. Þessir þingmenn eru óhæfir til þess að tala málum kvenna, og þannig hálfrar þjóðarinnar, og ættu því að segja af sér hið fyrsta.“