Ísland hefur ekki staðfest sáttmála um bann við kjarnavopnum sem tók gildi í dag. Ekkert Norðurlandanna eða aðildarríkja NATO hefur staðfest hann. Alls hafa 51 ríki samþykkt hann en samþykkt 50 ríkja þurfti til að hann öðlaðist gildi.
Samtökin International Campaign to Abolish Nuclear Weapons (ICAN), sem berjast gegn notkun kjarnavopna, hafa leitt baráttuna fyrir sáttmálanum og hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 2017 fyrir þá viðleitni. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hóf umræðu um sáttmálann sama ár og samþykktu 122 ríki af 193 aðildarríkjum SÞ ályktun um gerð alþjóðasáttmála um bann við kjarnavopnum.
Undirritun samningsins hófst 20. september 2017. Samkvæmt ICAN má nú finna rúmlega þrettán þúsund kjarnavopn í vopnabúrum þeirra níu ríkja sem búa yfir slíkum vopnum og 32 ríki styðja við notkun þeirra, þar á meðal Ísland.

Afstaða íslenskra stjórnvalda skýr
Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segir utanríkisráðuneytið að afstaða íslenskra stjórnvalda til kjarnavopna sé afdráttarlaus, þau stefni að kjarnavopnalausri veröld. Stjórnvöld hafi ekki stutt við gerð samningsins um bann við kjarnavopnum er að þau telja raunhæfara að nýta samninginn um bann við útbreiðslu kjarnavopna til að ná því markmiði. Ísland hafi stutt margvíslegra ályktanir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og NATO í þeim tilgangi.
Samkvæmt þjóðaröryggistefnu Íslands frá 2016 er landið og landhelgi þess friðlýst fyrir kjarnavopnum með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga til að stuðla að friði og afvopnun af hálfu Íslands.

Samkvæmt 5. grein stofnsamnings hernaðarbandalagsins NATO jafngildir árás á eitt ríki þess árás á þau öll. Því nýtur Ísland, vegna aðildar sinnar að NATO, verndar með kjarnavopnum Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands. NATO segir eina af grunnstoðum hernaðarbandalagsins trúverðugar varnir gegn andstæðingum með kjarnavopnum, hefðbundnum vopnum og eldflaugavörnum til að koma í veg fyrir átök.
Hvað er óheimilt samkvæmt sáttmálanum?
• Þróun nýrra kjarnavopna
• Aðstoð við þróun kjarnavopna (til dæmis af hálfu háskóla og vísindastofnanna)
• Geymsla kjarnavopna
• Framleiðsla kjarnavopna
• Hvatning til notkunar kjarnavopna (til dæmis með þátttöku í hernaðaræfingum)
Bandaríkin, Rússland, Kína, Frakkland og Bretland eru skilgreind sem ríki sem búa yfir kjarnavopnum samkvæmt alþjóðasamningi gegn útbreiðslu kjarnavopna. Einungis Ísrael, Pakistan, Indland, Norður-Kórea og Suður-Súdan hafa ekki undirritað hann. Þar af hafa Pakistan, Indland og Norður-Kórea gert opinberar kjarnavopnatilraunir. Ísrael er talið búa yfir kjarnavopnum en það aldrei verið staðfest þar sem opinber stefna landsins er að hafna hvorki né viðurkenna slíkt.
Sögulegur sáttmáli á mikilvægum tímapunkti
Daniel Högsta, yfirmaður herferðarinnar fyrir sáttmálanum hjá ICAN, segir sáttmálann sögulegan í samtali við Fréttablaðið. Sáttmálinn sé afrakstur áratugalangrar baráttu andstæðinga kjarnavopna, meðal annars af hálfu þeirra sem lifðu af kjarnavopnaárásir Bandaríkjanna gegn japönsku borgunum Hiroshima og Nagasaki í síðari heimsstyrjöld. Tímasetningin sé einnig mikilvæg.
Hættan á notkun kjarnavopna hefur aldrei verið jafn mikil.
„Þetta er mikilvægur tímapunktur þar sem ríki sem búa yfir kjarnavopnum eru að endurnýja vopnabúr sín og orðræða þeirra er hættuleg, sem sérfræðingar telja að geri það að verkum að hættan á notkun kjarnavopna hefur aldrei verið jafn mikil,“ segir Högsta.

Líkt og með samninga um bann við öðrum tegundum vopna verði sáttmálinn til þess að undirstrika að notkun kjarnavopna sé óásættanleg og hafi þar með þau áhrif að jafnvel ríki sem ekki staðfesta hann veigri sér við notkun þeirra. Bann við kjarnavopnum „er eitthvað sem ekkert ríki getur hundsað,“ segir hann enn fremur.
Ísland er aðili að samningum um bann við efnavopnum, jarðsprengjum, klasasprengjum og sýklavopnum. Afstaða Íslands til notkunar kjarnavopna, sökum aðildar landsins að NATO, jafngildi því að samþykkja notkun gereyðingarvopna sem geta lagt borgir í rúst og dregið hundruð þúsunda til dauða segir Högsta.

Samkvæmt könnun sem ICAN framkvæmdi hér á landi og birti í dag vilja 86 prósent Íslendinga að stjórnvöld staðfesti sáttmálann og einungis þrjú prósent eru því andsnúin. Auk þess vilji 75 prósent aðspurðra að Ísland taki forystu meðal NATO-ríkja og staðfesti sáttmálann.
Aðild að NATO er ekki afsökun
Högsta segir íslensk stjórnvöld ekki geta skýlt sér bak við aðild að NATO til að staðfesta ekki sáttmálann. Íslendingar séu andsnúnir notkun slíkra vopna og aðild að hernaðarbandalaginu útiloki ekki aðild að sáttmálanum. Bandaríkin hafa hins vegar gert öðrum NATO-ríkjum ljóst að þau séu mótfallinn þátttöku aðildarríkja í sáttmálanum.
Árið 2016 greiddi Ísland atkvæði gegn ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um að hefjast skildi vinna við gerð sáttmálans, eftir að bandarísk stjórnvöld sendu bréf til NATO-ríkja þar sem þau voru „eindregið hvött“ til að greiða atkvæði gegn ályktuninni og „ekki einungis sitja hjá.“
Þar kom einnig fram að ef tillagan væri samþykkt af allsherjarþinginu ættu aðildarríki ekki að taka þátt í samningaviðræðum. Ísland hefur síðan 2018 kosið gegn ályktun á allsherjarþinginu þar sem lýst er ánægju með sáttmálann og ríki eru hvött til að skrifa undir, staðfesta eða samþykkja hann eins fljótt og auðið er.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lýsti því yfir á Alþingi árið 2017, áður en hún tók við embætti forsætisráðherra í nóvember sama ár, að hún myndi vinna að því að Ísland samþykkti sáttmálann. Jóhanna Sigurðardóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson skrifuðu undir opið bréf í fyrra þar sem þau skoruðu á íslenska stjórnmálaleiðtoga að „sýna djörfung og þor – og samþykkja sáttmálann.“
Þverpólitískur stuðningur við þátttöku Íslands í sáttmálanum
Guttormur Þorsteinsson formaður Samtaka herstöðvarandstæðinga segir sáttmálann mikilvægan áfanga í afvopnunarmálum en samtökin eru meðlimir í ICAN og tekið þátt í að afla samningnum stuðnings og kynna hann. Hann vill að Ísland ryðji brautina fyrir önnur NATO-ríki og samþykki sáttmálann.
„Við vildum náttúrulega helst að Ísland skrifaði undir sáttmálann umsvifalaust en það er nokkuð ljóst að íslensk stjórnvöld fylgja hér stefnu NATO sem er sjálft kjarnorkubandalag og hefur engin áform um kjarnorkuafvopnun. En við ættum bara að taka af skarið og vera fyrsta NATO-ríkið til að skrifa undir enda herlaust og friðsamt land og ekkert vit í öðru en að banna þessi gereyðingarvopn og setja þannig raunverulega pressu á kjarnorkuveldin. Það er líka í takt við vilja þjóðarinnar og kjósenda allra flokka,“ segir Guttormur.
