Gardar Örn Úlfarsson
Föstudagur 22. janúar 2021
06.00 GMT

Ísland hefur ekki staðfest sáttmála um bann við kjarnavopnum sem tók gildi í dag. Ekkert Norðurlandanna eða aðildarríkja NATO hefur staðfest hann. Alls hafa 51 ríki samþykkt hann en samþykkt 50 ríkja þurfti til að hann öðlaðist gildi.

Sam­tökin International Campa­ign to Abolish Nuc­lear Wea­pons (ICAN), sem berjast gegn notkun kjarna­vopna, hafa leitt bar­áttuna fyrir sáttmálanum og hlutu friðar­verð­laun Nóbels árið 2017 fyrir þá við­leitni. Alls­herjar­þing Sam­einuðu þjóðanna hóf um­ræðu um sátt­málann sama ár og sam­þykktu 122 ríki af 193 aðildar­ríkjum SÞ á­lyktun um gerð al­þjóða­sátt­mála um bann við kjarna­vopnum.

Undir­ritun samningsins hófst 20. septem­ber 2017. Sam­kvæmt ICAN má nú finna rúm­lega þrettán þúsund kjarna­vopn í vopna­búrum þeirra níu ríkja sem búa yfir slíkum vopnum og 32 ríki styðja við notkun þeirra, þar á meðal Ísland.

Be­at­rice Fihn, fram­kvæmda­stjóri ICAN, tók við friðar­verð­launum Nóbels fyrir hönd sam­takanna árið 2017.
Fréttablaðið/AFP

Afstaða íslenskra stjórnvalda skýr

Í svari við fyrir­spurn Frétta­blaðsins segir utan­ríkis­ráðu­neytið að af­staða ís­lenskra stjórn­valda til kjarna­vopna sé af­dráttar­laus, þau stefni að kjarna­vopna­lausri ver­öld. Stjórn­völd hafi ekki stutt við gerð samningsins um bann við kjarna­vopnum er að þau telja raun­hæfara að nýta samninginn um bann við út­breiðslu kjarna­vopna til að ná því mark­miði. Ís­land hafi stutt marg­vís­legra á­lyktanir á vett­vangi Sam­einuðu þjóðanna og NATO í þeim til­gangi.

Sam­kvæmt þjóðar­öryggistefnu Ís­lands frá 2016 er landið og land­helgi þess frið­lýst fyrir kjarna­vopnum með til­liti til al­þjóð­legra skuld­bindinga til að stuðla að friði og af­vopnun af hálfu Ís­lands.

Rússneskir hermenn í hlífðarbúnaði standa hjá langdrægu landflugskeyti við heræfingar árið 2010.
Fréttablaðið/AFP

Sam­kvæmt 5. grein stofn­samnings hernaðar­banda­lagsins NATO jafn­gildir árás á eitt ríki þess árás á þau öll. Því nýtur Ís­land, vegna aðildar sinnar að NATO, verndar með kjarna­vopnum Banda­ríkjanna, Frakk­lands og Bret­lands. NATO segir eina af grunn­stoðum hernaðar­banda­lagsins trú­verðugar varnir gegn and­stæðingum með kjarna­vopnum, hefð­bundnum vopnum og eld­flauga­vörnum til að koma í veg fyrir átök.

Hvað er ó­heimilt sam­kvæmt sátt­málanum?


• Þróun nýrra kjarna­vopna
• Að­stoð við þróun kjarna­vopna (til dæmis af hálfu há­skóla og vísinda­stofnanna)
• Geymsla kjarna­vopna
• Fram­leiðsla kjarna­vopna
• Hvatning til notkunar kjarna­vopna (til dæmis með þátt­töku í hernaðar­æfingum)

Banda­ríkin, Rúss­land, Kína, Frakk­land og Bret­land eru skil­greind sem ríki sem búa yfir kjarna­vopnum sam­kvæmt al­þjóða­samningi gegn út­breiðslu kjarna­vopna. Einungis Ísrael, Pakistan, Ind­land, Norður-Kórea og Suður-Súdan hafa ekki undir­ritað hann. Þar af hafa Pakistan, Ind­land og Norður-Kórea gert opin­berar kjarna­vopna­til­raunir. Ísrael er talið búa yfir kjarna­vopnum en það aldrei verið stað­fest þar sem opin­ber stefna landsins er að hafna hvorki né viður­kenna slíkt.

Sögu­legur sátt­máli á mikil­vægum tíma­punkti

Daniel Högsta, yfir­maður her­ferðarinnar fyrir sátt­málanum hjá ICAN, segir sátt­málann sögu­legan í sam­tali við Frétta­blaðið. Sátt­málinn sé af­rakstur ára­tugalangrar bar­áttu and­stæðinga kjarna­vopna, meðal annars af hálfu þeirra sem lifðu af kjarna­vopna­á­rásir Banda­ríkjanna gegn japönsku borgunum Hiros­hima og Naga­saki í síðari heims­styrj­öld. Tíma­setningin sé einnig mikil­væg.

„Þetta er mikil­vægur tíma­punktur þar sem ríki sem búa yfir kjarna­vopnum eru að endur­nýja vopna­búr sín og orð­ræða þeirra er hættu­leg, sem sér­fræðingar telja að geri það að verkum að hættan á notkun kjarnavopna hefur aldrei verið jafn mikil,“ segir Högsta.

Beatrice Fihn, Daniel Högsta og Grethe Østern hjá ICAN.
Fréttablaðið/AFP

Líkt og með samninga um bann við öðrum tegundum vopna verði sátt­málinn til þess að undir­strika að notkun kjarna­vopna sé ó­á­sættan­leg og hafi þar með þau á­hrif að jafn­vel ríki sem ekki stað­festa hann veigri sér við notkun þeirra. Bann við kjarna­vopnum „er eitt­hvað sem ekkert ríki getur hundsað,“ segir hann enn fremur.

Ís­land er aðili að samningum um bann við efna­vopnum, jarð­sprengjum, klasa­sprengjum og sýkla­vopnum. Af­staða Ís­lands til notkunar kjarna­vopna, sökum aðildar landsins að NATO, jafngildi því að samþykkja notkun ger­eyðingar­vopna sem geta lagt borgir í rúst og dregið hundruð þúsunda til dauða segir Högsta.

Frá minningarathöfn í fyrra um fórnarlömb kjarnorkuvopnaárásar Bandaríkjanna gegn japönsku borginni Nagasaki.
Fréttablaðið/EPA

Sam­kvæmt könnun sem ICAN fram­kvæmdi hér á landi og birti í dag vilja 86 prósent Ís­lendinga að stjórnvöld stað­festi sátt­málann og einungis þrjú prósent eru því and­snúin. Auk þess vilji 75 prósent að­spurðra að Ís­land taki for­ystu meðal NATO-ríkja og stað­festi sátt­málann.

Aðild að NATO er ekki af­sökun

Högsta segir ís­lensk stjórn­völd ekki geta skýlt sér bak við aðild að NATO til að stað­festa ekki sátt­málann. Ís­lendingar séu and­snúnir notkun slíkra vopna og aðild að hernaðar­banda­laginu úti­loki ekki aðild að sátt­málanum. Banda­ríkin hafa hins vegar gert öðrum NATO-ríkjum ljóst að þau séu mót­fallinn þátt­töku aðildar­ríkja í sátt­málanum.

Árið 2016 greiddi Ís­land at­kvæði gegn á­lyktun alls­herjar­þings Sam­einuðu þjóðanna um að hefjast skildi vinna við gerð sátt­málans, eftir að banda­rísk stjórn­völd sendu bréf til NATO-ríkja þar sem þau voru „ein­dregið hvött“ til að greiða at­kvæði gegn á­lyktuninni og „ekki einungis sitja hjá.“

Þar kom einnig fram að ef til­lagan væri sam­þykkt af alls­herjar­þinginu ættu aðildar­ríki ekki að taka þátt í samninga­við­ræðum. Ís­land hefur síðan 2018 kosið gegn á­lyktun á alls­herjar­þinginu þar sem lýst er á­nægju með sátt­málann og ríki eru hvött til að skrifa undir, stað­festa eða sam­þykkja hann eins fljótt og auðið er.

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York.
Fréttablaðið/Getty

Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra lýsti því yfir á Al­þingi árið 2017, áður en hún tók við em­bætti for­sætis­ráð­herra í nóvember sama ár, að hún myndi vinna að því að Ís­land sam­þykkti sátt­málann. Jóhanna Sigurðar­dóttir, Ingi­björg Sól­rún Gísla­dóttir og Össur Skarp­héðins­son skrifuðu undir opið bréf í fyrra þar sem þau skoruðu á ís­lenska stjórn­mála­leið­toga að „sýna djörfung og þor – og sam­þykkja sátt­málann.“

Þver­pólitískur stuðningur við þátt­töku Ís­lands í sátt­málanum

Gutt­ormur Þor­steins­son for­maður Sam­taka her­stöðvarand­stæðinga segir sátt­málann mikil­vægan á­fanga í af­vopnunar­málum en sam­tökin eru með­limir í ICAN og tekið þátt í að afla samningnum stuðnings og kynna hann. Hann vill að Ís­land ryðji brautina fyrir önnur NATO-ríki og sam­þykki sátt­málann.

„Við vildum náttúru­lega helst að Ís­land skrifaði undir sátt­málann um­svifa­laust en það er nokkuð ljóst að ís­lensk stjórn­völd fylgja hér stefnu NATO sem er sjálft kjarn­orku­banda­lag og hefur engin á­form um kjarn­orku­af­vopnun. En við ættum bara að taka af skarið og vera fyrsta NATO-ríkið til að skrifa undir enda her­laust og frið­samt land og ekkert vit í öðru en að banna þessi ger­eyðingar­vopn og setja þannig raun­veru­lega pressu á kjarn­orku­veldin. Það er líka í takt við vilja þjóðarinnar og kjós­enda allra flokka,“ segir Gutt­ormur.

Jens Stoltenberg, aðalritari NATO, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á fundi NATO-ríkja árið 2019.
Fréttablaðið/EPA
Athugasemdir