Langflest ríki Evrópu hafa náð að fjölga heimilislæknum sínum mikið á undanförnum 20 árum. Ísland er eitt af fáum löndum þar sem hlutfall heimilislækna á hverja 100 þúsund íbúa hefur farið lækkandi.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær er hlutfall heimilislækna afar lágt á Íslandi enda starfsaðstæður þeirra bágbornari en víða annars staðar. Alls 847 íslenskir læknar eru starfandi erlendis.

Hlutfall heimilislækna hefur verið fast í kringum 60 lækna á hverja 100 þúsund íbúa síðan árið 2002, og vanalega undir. Alls hefur hlutfallið lækkað um 2,3 prósent á tímabilinu.

Þetta er öfug þróun miðað við flest Evrópuríki, sem náð hafa að fjölga heimilislæknum sínum, oft um í kringum 10 prósent eins og til dæmis í Þýskalandi og Bretlandi. Svíar hafa fjölgað heimilislæknum um 11,2 prósent, Danir um 7,7 og Norðmenn um heil 33,7 prósent.

Portúgalar hafa lyft grettistaki í fjölgun heimilislækna og þar er hlutfallið langhæst í Evrópu. Fjölgunin þar er 78,7 prósent á 20 árum. Í Hollandi er fjölgunin 46,9 prósent. Aftur á móti er Ísland ekki eina landið þar sem hlutfallsleg fækkun hefur orðið, í Frakklandi hefur þeim fækkað um 14 prósent.