Stefnumót við náttúruna er yfirskrift hvatningarátaks sem miðar að því að hvetja landsmenn til að heimsækja friðlýst svæði á Íslandi í sumar. Að átakinu stendur umhverfis- og auðlindaráðuneytið í samstarfi við Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarð og þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Fram kemur að tæplega 120 friðlýst svæði séu hér á landi, þar sem njóta megi ólíkra hliða íslenskrar náttúru, allt frá viðkvæmum gróðri og skordýrum til stórbrotinna fjalla og landslags. Á mörgum svæðanna veita landverðir fræðslu og upplýsingar.

„Í sumar hafa landsmenn einstakt tækifæri til að ferðast um landið sitt og njóta þess besta sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða,“ er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, í tilkynningu. „Það er hvergi betra tækifæri til að gera akkúrat það en á friðlýstu svæðunum okkar. Þar höfum við lagt mikla áherslu á uppbyggingu innviða á undanförnum árum, sem auðvelda aðgengi almennings að þessum náttúruperlum.“