Íslamska ríkið hefur hafið notkun á sam­skipta­for­riti sem byggir á sömu tækni og raf­myntir og gerir þeim kleift til að tengja saman allt að hundrað þúsund manns í einum spjall­hópi. Það er frétta­miðillinn Vice sem greinir frá þessu og segir að for­ritið, sem heitir BCM, sé full­kominn vett­vangur fyrir hryðju­verka­sam­tökin til að eiga nafn­laus sam­skipti sín á milli, dreifa á­róðri, myndböndum og senda fjár­muni á milli landa. For­ritið er fáan­legt á bæði Goog­le Store og App Stor­e.

Betur fallið að þörfum hryðju­verka­manna

Í fréttinni segir að Íslamska ríkið hafi gert margar til­raunir til að nota sam­skipta­for­rit á borð við Tam­Tam, Riot og Hoop. Bita­keðju­tæknin (e. blockchain), sem BCM byggir á og hefur hingað til aðal­lega verið notuð við raf­mynta­gröft, býður hins vegar upp á meiri nafn­leynd og betri dul­kóðun og er þar af leiðandi betur til þess fallin að forðast yfir­völd.

Hingað til hefur spjall­forritið Telegram verið það for­rit sem hryðju­verka­menn hafa notað til að vera sýni­legir án þess að gefa upp of miklar upp­lýsingar um sig. Í al­þjóð­legri lög­reglu­að­gerð í lok nóvember var stórt net spjall­hópa hryðju­verka­manna á Telegram hins vegar tekið niður og samtökin hættu í kjölfarið að nota það.

For­ritið er á Goog­le Stor­e og App Stor­e

Í fyrstu virtist sem rúss­neska for­ritið Tam­Tam tæki við af Telegram. Stjórn­endur þess hafa aftur á móti verið iðnir við að loka reikningum þeirra notenda sem þeir telja tengjast hryðju­verka­hópum. Íslamska ríkið virðist þá hafa hafið notkun á for­ritinu BCM, sem stendur fyrir Be­cause Communi­cation Matters, í staðinn. For­ritið er fáan­legt á bæði Goog­le og App stor­e, en ó­líkt öðrum sam­skipta­for­ritum þarf ekki að gefa upp símanúmer eða aðrar upplýsingar til að geta nota það.

Tals­menn fyrir­tækisins vildu ekki tjá sig um hvort að þeir vissu af hópum hryðju­verka­manna sem notuðu for­ritið eða hvort að þeir myndu fjar­lægja slíka hópa.

Þó að fram­leið­endur for­ritsins lofi því að ó­mögu­legt sé fyrir utan­að­komandi aðila að komast í skila­boðin og af­kóða sam­skiptin sem fari þar fram, eru sér­fræðingar ekki sann­færðir um að lof­orðin standist.