Bandarískir stjórnmálamenn, þar á meðal nokkrir af helstu bandamönnum Donalds Trump Bandaríkjaforseta, hafa fordæmt ákvörðun hans að draga um þúsund hermenn Bandaríkjanna frá Sýrlandi. Talið er að ákvörðun hans hafi gert Tyrkjum kleift að ráðast gegn sveitum Kúrda í Sýrlandi. Tilkynnt var um ákvörðun forsetans síðastliðinn sunnudag.

Trump varði ákvörðun sína og sagði að þátttaka Bandaríkjanna í stríði í Miðausturlöndunum hafi verið verið versta ákvörðun í sögu þjóðarinnar.

Hvíta húsið sendi frá sér tilkynningu í dag að fordæma innrás Tyrkja. Þar er tekið fram að ríkisstjórn Erdogan beri nú ábyrgð á því að Íslamska ríkið nái ekki fótfestu á ný.

Sýrlenskir Kúrdar sjá um fangabúðir sem hýsa liðsmenn íslamska ríkisins. Þjóðarleiðtogar víða um Evrópu hafa lýst yfir áhyggjum um að umræddir fangar sleppi úr haldi á meðan Kúrdar neyðist til að verja sig gegn innrás Tyrkja. Tyrkir segjast reiðubúnir að taka við föngunum.

Lindsey Graham, formaður dómsmálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings gagnrýndi harðlega ákvörðun forsetans og varar við að Íslamska ríkið gæti aftur náð fótfestu á svæðinu.

Þór­hildur Sunna Ævars­dóttir, þing­kona Pírata, kallaði eftir því í um­ræðu um störf þingsins fyrr í dag að ríkis­stjórnin for­dæmi inn­rás Tyrkja í Sýr­land.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segist hafa miklar áhyggjur af innrás Tyrkja og kallar eftir vopnahléi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ekki gefið frá sér formlega tilkynningu.