Nýjar myndir úr flugi yfir Grímsvötn í dag sýna mikið sig á íshellunni.

GPS mælir Veðurstofu Íslands sýnir að íshellan hefur sigið rúmlega 40 metra eða um 10 til 15 metra bara síðastliðinn sólarhring. Rennslið í Gígjukvísl í dag mældist 2220 rúmmetrar á sekúndu.

„Þetta er greinileg hröðun,“ segir vakthafandi náttúruvásérfræðingur í samtali við Fréttablaðið í kvöld en þetta er mesta sig sem hefur mælst á einum sólarhring frá því að atburðarásin hófst í lok nóvember. Gert er ráð fyrir að jökulhlaupið nái hámarki á morgun, sunnudag 5. desember.

Austurendi Skeiðarárjökuls þar sem hlaupvatn úr Grímsvötnum brýst fram undan jöklinum.
Atlantsflug / Jón Grétar Sigurðsson

Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að dæmi séu um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922.

Rennslið í Gígjukvísl í dag mældist 2220 rúmmetrar á sekúndu.
Atlantsflug / Jón Grétar Sigurðsson

Jón Grétar Sigurðsson hjá Atlantsflugi tók eftirfarandi myndband í flugferð seinnipartinn í dag yfir Grímsvötn og Skeiðarárjökul.