Rafskútuleigan Hopp er nú með starfsemi á um þrjátíu stöðum víðs vegar í Evrópu og stefnir á að í lok árs verið starfsemi fyrirtækisins á fimmtíu stöðum. Hopp er rekið eftir sérleyfismódeli þar sem aðilar víðs vegar um heim reka sín eigin sérleyfi en Hopp ehf. leigir þeim aðgang að hugbúnaði og veitir þeim þjónustu.
Ragnar Heiðar Sigtryggsson er einn sérleyfishafa Hopps, en hann rekur Hopp á Ísafirði. „Ég hafði nýtt mér rafmagnshlaupahjól í Reykjavík og fannst þau algjör snilld. Langaði að fá þjónustuna vestur og ákvað að kynna mér þetta nánar,“ segir Ragnar.
„Þá sá ég þetta með sérleyfin og sendi þeim póst. Síðan hefur þetta bara gengið ótrúlega vel og Hopp er orðið vinsælt á Ísafirði,“ segir Ragnar. Hann segir að á hverjum degi séu farnar um 120 ferðir á Hopp-hjólum á Ísafirði. Frá því að hann hóf starfsemi þar í júlí hafi verið farnar yfir tólf þúsund ferðir.
„Ég reyni bara að hafa þetta þannig að það séu alltaf hjól þar sem er fólk. Um daginn var til dæmis stórt brúðkaup á Flateyri og ég sá að margir voru að opna appið þar svo þá fór ég bara með hjól þangað,“ segir Ragnar.
Bæjarbúar ánægðir
Hann segir að Hopp-appið sé sérstaklega vel hannað og aðgengilegt. Allur hugbúnaður Hopps er þróaður á Íslandi og hafa bæði vefurinn og appið hlotið mikið lof víðs vegar.
Ragnar segir bæjarbúa á Ísafirði afar ánægða með að fá Hopp í bæinn. Það sama eigi við um ferðafólk sem þangað kemur. „Hingað koma ófá skemmtiferðaskipin yfir sumarið og það eru miklir möguleikar í því. Það er ódýrt og auðvelt að skoða sig um á hlaupahjóli og það hentar fólki á öllum aldri,“ segir Ragnar.
„Ég fór til dæmis með hóp af fólki á aldrinum 75 til 80 ára í ferð hérna um bæinn um daginn og það var geggjað,“ bætir hann við.

Áhersla á að íbúar í smærri bæjum geti nýtt sér Hopps
Hildur María Hjaltalín Jónsdóttir, rekstrarstjóri Hopps, segir að lögð sé áhersla á að íbúar í smærri bæjum og þorpum í Evrópu geti nýtt sér þjónustu Hopps. „Þetta, að veita lókal einstaklingum möguleikann á að breyta ferðavenjum í sínum bæjum, er það sem gerir Hopp svo sterkt,“ segir Hildur.
Hopp var stofnað árið 2019 í Reykjavík með 60 rafhlaupahjólum, nú eru hjólin yfir sex þúsund víðs vegar um heiminn. Um helmingur þeirra er í Reykjavík. Þá eru einnig Hopp-hjól í Kiruna og á Tenerife, svo dæmi séu tekin.
„Rafskútur eru frábær viðbót við græna samgöngumáta og fara vinsældir þeirra sívaxandi um heim allan,“ segir Hildur. „Skúturnar er hægt að nýta samhliða almenningssamgöngum enda leitar nútímafólk sífellt að umhverfisvænni ferðamáta sem gerir ferðir innanbæjar bæði þægilegri og skemmtilegri,“ bætir Hildur við.