Afmörkun sjókvíaeldis aðeins 250 metra frá ós Dufansdalsár í Fossfirði er bæði andstæð reglugerð og myndi rýra verðmæti jarða á svæðinu, segir Ísfélag Vestmannaeyja, sem mótmælir tillögum Hafrannsóknastofnunar um sjó­kvía­eldi í Arnarfirði og fjörðum inn af honum.

Skipulagsstofnun kallaði eftir umsögnum um tillögu Hafrannsóknastofnunar og er Ísfélag Vestmannaeyja meðal þeirra sem senda inn athugasemd. Fyrirtækið keypti í fyrra jörðina Neðri-Dufansdal í Fossfirði sem gengur inn af Arnarfirði. Í umsögn frá lögmanni Ísfélagsins, Finni Magnússyni, segir að í tillögunni séu meðal annars afmörkuð eldissvæði stuttu fyrir framan Neðri-Dufansdal. Ísfélagið leggist alfarið gegn staðsetningunni.

Finnur bendir á að samkvæmt reglugerð sem sett sé með stoð í lögum um fiskeldi skuli Matvælastofnun tryggja, áður en rekstrarleyfi til fiskeldis sé veitt, að „fjarlægðarmörk frá ám með villta stofna laxfiska og sjálfbæra nýtingu séu eigi styttri en fimm kílómetrar þegar um laxfiska er að ræða í eldi“, vitnar hann til reglugerðarinnar.

Segir lögmaðurinn að í Neðri-Dufansdal renni laxveiðiáin Dufans­dalsá. Í henni sé villtur laxastofn og þéttleikavísitala laxfiska í ánni sé 63,4 samkvæmt rannsókn Náttúrustofu Vestfjarða frá því í ágúst 2016.

„Þegar hnit umrædds eldissvæðis eru skoðuð er ljóst að eldissvæðið er ekki í fimm kílómetra fjarlægð frá Dufansdalsá heldur virðast næstu mörk svæðisins vera 250 metra frá árósum,“ rekur lögmaðurinn. Eldissvæðið sé því í ósamræmi við fyrrnefnda reglugerð og Ísfélagið telji að það þjóni engum tilgangi að afmarka eldissvæði í Fossfirði líkt og gert sé í tillögunni.

„Umbjóðandi minn telur að nái sú tillaga Hafrannsóknastofnunar, sem auglýst er af hálfu Skipulagsstofnunar og gerir ráð fyrir fiskeldi í einungis 250 metra fjarlægð frá ósum Dufansdalsár, fram að ganga þá muni það rýra verðmæti Neðri-Dufansdals og annarra jarða á svæðinu,“ undirstrikar lögmaður Ísfélagsins.

Vakin er athygli á því í umsögn Ísfélagsins að rekstrarleyfi og starfsleyfi vegna laxeldis í sjókvíum gildi í sextán ár. „Er það mjög íþyngjandi fyrir landeigendur ef fiskeldisstöð er rekin í 250 metra fjarlægð frá jörð þeirra, enda felur slík starfsemi í sér áhrif á allt nærumhverfi. Jafnvel þótt gildandi starfsleyfi væri ekki á tilteknu svæði, sem hefur verið afmarkað sem eldissvæði, myndi það hafa neikvæð áhrif á möguleika landeigenda til þess að selja jörð sína ef fyrir liggur að sjókvíaeldisstöð verði rekin svo nálægt henni, þar með talið ósum Dufansdalsár.“

Lögmaður Ísfélagsins segir enn fremur að Fjarðalax ehf. hafi á árinu 2012 fengið rekstrarleyfi fyrir fiskeldi til tíu ára á umræddu svæði. Og starfsleyfi frá Umhverfisstofnun sem gildi til ársins 2028.

„Að mati Ísfélagsins skýtur skökku við að auglýst sé tillaga Hafrannsóknastofnunar á svæði þar sem Fjarðalax ehf. er með starfsleyfi enda kann að vera að brostnar séu forsendur fyrir rekstrarleyfi Fjarðarlax ehf. á umræddu svæði,“ segir í umsögninni og vísað er til þess að fella eigi rekstrarleyfi úr gildi sé starfsemi ekki hafin innan þriggja ára frá útgáfu leyfis. Sömuleiðis skuli fella niður leyfið stöðvist reksturinn í tvö ár.

Rekur lögmaðurinn að 28. desember 2018 hafi verið farið í eftirlit af hálfu Umhverfisstofnunar á fiskeldissvæði Fjarðalax í Fossfirði. Enginn fiskur hafi verið á eldissvæðinu. „Kom jafnframt í ljós að engar kvíar voru úti í júní 2018 og hafði enginn fiskur verið á svæðinu á vegum Fjarðalax ehf síðan árið 2016. Því hefur fiskeldi ekki verið stundað á svæðinu í fjögur ár,“ bendir hann á.

Ísfélagið telji því í raun óskiljanlegt að auglýst sé tillaga um fiskeldi á svæði sem starfsleyfi Fjarðalax taki til. Það sé auk þess ólíklegt að fyrirtækið hefji á ný rekstur fiskeldisstöðvar á svæðinu. Rekstrartap Fjarðalax hafi numið yfir milljarði króna á árinu 2018 og ójafnað, uppsafnað tap félagsins hafi numið ríflega 3,1 milljarði króna í árslok 2018.

Í ljósi þess sem að framan greinir kveðst Ísfélagið telja að forsendur fyrir rekstrarleyfi Fjarðalax séu brostnar.

Ísfélag Vestmannaeyja keypti Neðri-Dufansdal í júlí í fyrra af félaginu AMH verslun sem eignast hafði jörðina í apríl 2018.