Isavia hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness í dag í máli ALC og Isavia vegna kyrrsetningar þotu á leigu hjá WOW air.

Lýsa forsvarsmenn Isavia furðu sinni með niðurstöðuna en Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði að bandaríska leigufélaginu bæri ekki að greiða allar skuldir WOW air við Isavia heldur einungis skuldir vegna einnar þotu sem ALC leigði til íslenska flugfélagsins.

Segir í yfirlýsingu Isavia það mikla ósamræmi sem sé milli umfjöllunar Landsréttar og Héraðsdóms um málið vekja sérstaka furðu en þann 24. maí hafnaði Landsréttur aðfarabeiðni ALC um að fá flugvél sína afhenta.

Sá úrskurður Landsréttar var síðar ómerktur af Hæstarétti Íslands þann 28. júní. Var það gert vegna þess að Landsrétti, í stuttu máli, brást heimild til að taka til umfjöllunar ágreiningsefni málsins.

„Héraðsdómur getur ekki verið að taka mið að úrskurði sem hefur verið ómerktur,“ segir Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC um málið.

Segir hann að dómari hafi verið að standa með fyrri úrskurði sínum í dag.

Beiðni Isavia um frestun réttaráhrifa hafnað

Isavia kom jafnframt með beiðni varðandi frestun réttaráhrifanna í dag en dómari hafnaði þeirri beiðni.

Segir einnig í yfirlýsingu Isavia: „Þá teljum við verulega ámælisvert að beiðni um frestun réttaráhrifa sé hafnað í ljósi þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem undir eru. Frestun réttaráhrifa hefði haft óveruleg áhrif á ALC en hefði tryggt eðlilega meðferð jafn mikilvægs máls fyrir æðra dómsstigi. Með synjun Héraðsdóms Reykjaness á frestun réttaráhrifa er takmarkaður mjög möguleiki Isavia til að fá endanlegan úrskurð fyrir fjölskipuðum dómi.“

Segir Oddur Ástráðsson meginatriði í rökstuðningi dómara við synjun beiðni Isavia um frestun að Isavia lét það viðgangast að vanskil hlóðust upp.

„Dómarinn vísaði til þess meðal annars að Isavia hefði haft marga mánuði til þess að tryggja sína fjárhagslegu hagsmuni vegna skulda WOW air og látið vanskil viðgangast allan þann tíma og bendir einnig á að fjárhagslegir hagsmunir ALC í málinu séu margfalt meiri en fjárhagslegir hagsmunir Isavia. Þotan sé margfalt meira virði en sem nemur heildarskuld WOW air við Isavia,“ segir Oddur.

Vinna við brottflutning hafin og skaðabótakrafa skoðuð

Aðspurður hvort skaðabótakrafa verði höfðuð á hendur Isavia segir Oddur: „Fyrst þarf að leysa úr því hversu langt heimild Isavia til að kyrrsetja þotuna náði áður en bætur verða sóttar.“

Segir Oddur metið tap ALC fara hækkandi með hverjum deginum meðan vélin skapar ekki tekjur sem hún gerir í notkun félagsins. „Það tjón virðis vera vel komið á annað hundrað milljónir króna þó ekki hafi verið tekið utan um það með endanlegum hætti.“

Vinna er þegar hafin við að koma vélinni aftur í flughæft ástand eftir um fjögurra mánaða kyrrstöðu og verður henni flogið til Bandaríkjanna um leið og hún uppfyllir allar öryggiskröfur flugmálayfirvalda.